Joe Lycett tilkynnti þessa mótmælaaðgerð á Twitter-síðu sinni og lét fylgja mynd af skjali frá breskum yfirvöldum sem staðfestu að hann hefði breytt nafni sínu löglega og héti því núna Hugo Boss.

Boss er dagskrárgerðarmaður sem hefur komið fram í ýmsum breskum sjónvarpsþáttum og hann er með sinn eigin gamanþátt í bresku sjónvarpi þar sem hann fjallar um neytendavernd gagnvart stórfyrirtækjum á skoplegan hátt.

Boss sagðist hafa ákveðið að gera þessa breytingu til að mótmæla því að þýski tískurisinn hefði skipt sér af litlum fyrirtækjum og hópum sem sinna góðgerðarmálum og hafa notað orðið „boss“ í starfsemi sinni.

Gerir grín að athyglinni

„Hugo Boss, sem er með um 2,7 milljarða dollara í árlegri veltu, hefur sent bréf þar sem fjölda lítilla fyrirtækja og hópa sem sinna góðgerðarstarfsemi og nota orðið „BOSS“ er hótað lögbanni, þar á meðal litlu brugghúsi í Swansea sem þurfti að eyða þúsundum punda í lögfræðikostnað og breytingar á vörumerki,“ sagði Boss í tísti sínu. Hann bætti við:

„Það er ljóst að þeir hjá Hugo Boss HATA að fólk noti nafnið þeirra. En því miður fyrir þá breytti ég nafninu mínu löglega í þessari viku og heiti núna Hugo Boss. Allar yfirlýsingar mínar héðan í frá eru ekki frá Joe Lycett heldur Hugo Boss. Njótið vel.“

Stórstjörnur á tískusýningu Boss á tískuvikunni í Mílanó. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Tístin fengu strax mikla athygli og margir hrósuðu Boss fyrir að standa uppi í hárinu á stórfyrirtækinu.

Boss gerði seinna grín að allri fjölmiðlaathyglinni sem uppátækið fékk og því að hafa verið margoft beðinn um að senda frá sér yfirlýsingar vegna málsins.

„Ég ætla nú að gefa út nokkrar yfirlýsingar sem ég vona INNILEGA að enginn rugli saman við skoðanir fyrirtækisins Hugo Boss. Bara svo það sé á hreinu, þá eru þetta yfirlýsingar Hugo Boss, en ekki Hugo Boss,“ sagði hann í tísti.

Yfirlýsingarnar voru fjölbreyttar. Boss sagði að Hugo Boss hitaði fisk í örbylgju á skrifstofunni, Hugo Boss spyrði alltaf „á hvaða prósentu ertu?“ þegar hann lánar hleðslutækið sitt, að Hugo Boss væri með illa þefjandi afturenda, að Hugo Boss segði ekki „anyway“, heldur „anyhoo“, að Hugo Boss sturtaði ekki niður nema hann væri heima hjá sér og að Hugo Boss elskaði grínþætti fyrir neytendur þar sem barist er fyrir lítil fyrirtæki sem fá á sig hótanir um lögbann frá fjölþjóðlegum stórfyrirtækjum.

Vörumerki með aukna vernd

Þýski tískurisinn hefur tjáð sig um uppátæki Boss. Talsmaður fyrirtækisins sagði í yfirlýsingu:

„Við bjóðum grínistann sem áður var þekktur sem Joe Lycett velkominn í Hugo Boss-fjölskylduna. Eins og hann veit, þá nýtur Hugo Boss-vörumerkið aukinnar verndar vegna þess hversu vel þekkt það er, ekki bara gagnvart vörumerkjum fyrir svipaðar vörur, heldur einnig gagnvart vörum sem svipar ekki til okkar í öllum vöruflokkum og sú vernd nær líka til vörumerkjanna Boss og Boss Black og útlits þeirra.

Hér sést nýja undirskriftin hans Hugo Boss. MYND/WIKIPEDIA

Eftir að Boss Brewing sótti um að skrá vörumerki sem var svipað okkar eigin vel þekkta vörumerki nálguðumst við þá til að koma í veg fyrir hugsanlegan misskilning varðandi vörumerkin Boss og Boss Black, sem var verið að nota til að markaðssetja bjór og klæðnað.

Báðir aðilar unnu uppbyggilega saman að lausn, sem leyfir Boss Brewing að halda áfram að nota nafnið sitt og allar sínar vörur, fyrir utan tvo bjóra, Boss Black og Boss Boss, þar sem samið var um smávægilega nafnabreytingu.

Sem víðsýnt fyrirtæki viljum við taka fram að við erum ekki mótfallin frjálsri notkun tungumáls á nokkurn hátt og samþykkjum að fólk noti hið almenna orð „boss“ oft og á fjölbreyttan hátt í ólíkum tungumálum.“

Enginn ruglast á bjór og Boss

Samkvæmt WalesOnline þurfti Boss Brewing að greiða rúmlega 1,6 milljónir króna í lögfræðikostnað á síðasta ári eftir að Hugo Boss hótaði brugghúsinu lögbanni.

Grínistinn mætti í viðtal í bresku sjónvarpi í vikunni til að tjá sig um nafnabreytinguna þar sem hann sagði að hér væri risastórt fyrirtæki að takast á við lítið fyrirtæki og þetta væri bara ekki sanngjarnt. „Enginn er að fara að ruglast á bjór og Hugo Boss,“ sagði Boss.