Lífið

Breytir borðstofunni í gallerí

Myndlistarkonan Sigríður Huld Ingvarsdóttir sækir innblástur í sveitina. Hún breytir borðstofu foreldra sinna í sýningarsal yfir helgina og er óhrædd við að storka örlögunum, föstudaginn 13.

Sigríður Huld opnar sýningu í dag, föstudaginn þrettánda klukkan 13. MYND/AUÐUNN

Ég er ekki hjátrúarfull. Við mamma erum reyndar dálítið kaldhæðnar báðar og finnst bara fyndið að storka örlögunum með því að opna sýningu föstudaginn þrettánda, klukkan þrettán,“ segir Sigríður Huld Ingvarsdóttir myndlistarkona en hún opnar sýningu í dag á yfir tuttugu málverkum og kolateikningum sem hún hefur unnið síðustu þrjú ár.

Sýningarsalurinn er borðstofan heima hjá foreldrum hennar í Búðasíðu 8 á Akureyri. Áður hafði Sigríður sýnt verkin í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík og þegar sýningunni þar lauk reyndust sýningarsalir ekki liggja á lausu.

„Okkur mömmu datt þá í hug að búa til viðburð hérna heima. Það átti hvort sem er að tæma borðstofuna og mála svo við ákváðum bara að slá tvær flugur í einu höggi. Fyrst ætlaði ég bara að hafa opið þennan eina dag en mamma tók ekki annað í mál en að hafa opið alla helgina. Ég er ótrúlega ánægð með það, það hefðu ekki allir foreldrar nennt að standa í þessu,“ segir Sigríður. Foreldrarnir, Ásrún Aðalsteinsdóttir, textílhönnuður og kennari, og Ingvar Haraldsson, húsasmíðameistari og húsvörður Listasafns Akureyrar, hafa unnið að undirbúningi sýningarrýmisins af kappi og munu standa vaktina alla helgina.

„Þau sögðu þetta tilvalið tækifæri til þess að halda veislu. Það verður freyðivín og fleira skemmtilegt á opnuninni,“ segir Sigríður.

Tæknilegt nám í myndlist

Sigríður Huld er búsett í Svíþjóð og hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga, bæði á Íslandi og í Svíþjóð. Ytra stundaði hún nám í klassískri teikningu og olíumálun í SARA, The Swedish Academy of Art, og hefur sinnt kennslu í myndlist eftir að námi lauk. Hún segir námið hafa verið afar tæknilegt og sköpunargáfan þar af leiðandi sett til hliðar.

„Núna er ég að feta mig út í að mála það sem mig langar til og sæki innblásturinn í sveitina en ég ólst upp í Bárðardal. Myndefnin eru hestar og kindur og portrett af konum með gæruskinn. Nærmyndir af gæruskinnum kalla ég „hugleiðslumálverkin“ mín og með þeim er ég að reyna að slíta mig frá þeirri hugsun að ég þurfi að gera allt rétt og nákvæmlega, eins og áhersla var lögð á í skólanum,“ segir Sigríður.

Sýningin verður opnuð klukkan 13 í dag í Búðasíðu 8 á Akureyri og verður opið til miðnættis. Laugardag og sunnudag verður opið frá klukkan 13 til 22. Nánar má skoða verk Sigríðar undir heitinu Huld á Instagram og Facebook og á vefsíðunni huld.se.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tíska

Hanna flíkur úr ó­nýttum efna­lagerum

Helgarblaðið

Eftir hundrað ár munu fleiri leika sér

Helgarblaðið

Leyndarmál íslenskrar listasögu

Auglýsing

Nýjast

Hatari er viðvörun

Líkt við Gaultier og Galliano

Í­huguðu nánast alla leikara í Hollywood fyrir Titanic

Erna komst inn í einn virtasta lista­há­skóla Evrópu

Rosa­legt ferða­lag fíkilsins

Vargurinn sleppti heil­brigðum haferninum

Auglýsing