Dansverkið When the Bleeding Stops eftir Lovísu Ósk Gunnarsdóttir er frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins í kvöld sem opnunarsýning á Reykjavík dance festival. Hugmyndin að verkinu fæddist fyrir þremur árum þegar Lovísa hélt að hún væri að byrja á breytingaskeiðinu og fékk smá sjokk þar sem hún hafði aldrei hugsað út í slíkt. Hún lýsir því sem földu leyndarmáli sem enginn talar um.

„Ég var að verða fertug á þessum tíma og þetta fór einhvern veginn alveg fram hjá mér,“ segir hún.

Lovísa dansaði með Íslenska dansflokknum í 16 ár.
Mynd/Aðsend

Líkt og útrunnin vara

„Ég þurfti að horfast í augu við ákveðna fordóma innra með mér um þá ímynd sem ég hafði á breytingaskeiðinu: Sveittar miðaldra konur eins og ég hafði séð í bíómyndum og leið eins og ég væri eins og útrunnin vara og lífið væri eignlega bara að fara niður á við, sem er fjarri sanni,“ segir Lovísa.

Það var ansi hressandi að komast að þeirri staðreynd að þetta væri alls ekki svona slæmt.“ Lovísa segir að hún hafi verið staðráðin í því að lesa sig til um breytingarskeiðið og leitaði til annarra kvenna. Hún skráði sig meðal annars í Facebook hóp sem heitir Breytingaskeiðið til að fá frekari upplýsingar.

Í sýningunni eru níu dansarar auk myndbandanna sem Lovísa fékk sent.
Mynd/Aðsend

Lokaverkefnið fæðist

„Á þessum tíma var ég í meistaranámi í sviðslistum við Listaháskóla Íslands og var lokaverkefnið mitt allt í einu farið að fjalla um breytingaskeiðið,“ upplýsir Lovísa en verkið verður frumsýnt í kvöld. Hún hafi sent beiðni til kvennanna í hópnum að senda henni myndband af þeim sjálfum dansa sóló heima í stofu eftir ákveðinni uppskrift.

„Það stóð ekki á viðbrögðum,og pósthólfið fylltist af ókunnugum miðaldra konum út um allt Ísland dansandi heima í stofu.“ Lovísa dansar sjálf í verkinu ásamt níu öðrum dönsurum, auk allra þeirra sem sendu inn myndbandsupptökur.

„Verkið flytur áhorfendur eitt augnablik inn í stofu kvennanna og sýna inn í reynsluheim þeirra á breytingaskeiðinu. Býður okkur upp á hlátur, grátur, skömm og húmor,“ segir Lovísa og bætir við að þessi hópur hafi veitt henni mikinn innblástur.