Sundlaugasögur, heimildarmynd Jón Karls Helgasonar um íslenskar sundlaugar, verður forsýnd á morgun. Það er varla hægt að finna betri vettvang fyrir viðburðinn en Sundhöllina í Reykjavík, þar sem gestir fá að njóta myndarinnar ofan í lauginni.

„Þetta er ansi einstakur atburður – ég held að hvergi í heiminum hafi heimildarmynd um sundlaugar verið sýnd í sundlaug,“ segir Jón Karl spenntur. „Mig langaði að prófa það sjálfur að vera í röndótta bolnum mínum og sitja þar á meðal fleiri gesta og upplifa myndina mína ofan í lauginni.“

Forsaga myndarinnar hófst fyrir tíu árum síðan þegar Jón Karl frumsýndi heimildarmyndina Sundið, þar sem tekin var fyrir barátta nokkurra Íslendinga við að synda yfir Ermarsundið. Þar mátti líka finna sögulegan fróðleik um sundkunnáttu Íslendinga frá fornu fari.

„Þá byrjaði áhugi minn á að fjalla um þennan kúltúr okkar í sundlaugum á Íslandi,“ segir Jón Karl. „Í þessari mynd held ég áfram að sviðsetja sundkennslu á síðustu öld, svo þetta er óbeint framhald hvað það varðar. En svo heimsótti ég yfir hundrað sundlaugar til að finna fólk sem hefur sögur af því hvernig það upplifði sundkennslu á unga aldri.“

Breiður aldurshópur

Í myndinni koma fyrir tuttugu og fimm sundlaugar, hver með sinn undirkúltúr.

„Ætli meðalaldurinn í myndinni sé ekki svona um níutíu ár,“ segir Jón Karl og hlær. „Þegar persónuverndarlögin urðu að lögum þá var mjög erfitt, hér um bil vonlaust, að mynda í sundlaugum landsins. Þannig að þessi mynd verður trúlega síðasta heimildarmyndin sem er tekin upp í sundlaugum landsins við eðlilegar aðstæður.“

Ungbarnasund á Fáskrúðsfirði.

Þrátt fyrir háan meðalaldur má þó finna fulltrúa yngri kynslóða.

„Yngsti þátttakandinn í myndinni er tíu mánaða. Við sjáum móður hans keyra hundrað kílómetra frá Egilsstöðum til Fáskrúðsfjarðar til að fara með hann í ungbarnasund,“ segir Jón Karl. „Íslendingar eru aldir upp í sundi frá unga aldri, sem þekkist ekki í öllum nágrannalöndunum okkar. Sundkennsla er ekki hluti af menntakerfinu á Norðurlöndum, Bretlandseyjum og víðar. Þar þurfa foreldrar að finna sundkennara.“

Okkar samkomustaður

Að mati Jóns Karls er íslenska sundmenningin einstök á heimsvísu.

„Íslendingar nýta sundlaugarnar bæði sem heilsulind og líka til þess að hitta annað fólk,“ útskýrir hann. „Frakkarnir fara á torgin sín til að fá sér rauðvín, Bretarnir fara á krána, Finnarnir í sánu, en við förum í sund.“

Jón Karl bendir á hvað fullorðnu fólki finnist gott að komast í sund til að hitta annað fólk, því að margir búi einir.

„Ég hitti konu sem er níræð og syndir 300 metra á hverjum morgni og hittir vini sína í leiðinni. Svo eru líka hópar sem koma og stunda alls konar leikfimi en líka til að hittast. Sundlaugarnar eru okkar samkomustaður.“

Fegurð lauganna

„Það er auðvitað Vesturbæjarlaugin,“ svarar Jón Karl, aðspurður um hver sín uppáhaldslaug sé. „Þar fæddist ég óbeint. Ég var sex ára þegar hún var reist 1961 og hún var leikvöllurinn minn. Ég fór með pabba í sund fyrstu tuttugu árin, ég segi ekki á hverjum degi, en ansi oft í viku.“

Að lokum hvetur Jón Karl fólk til að sjá myndina vegna fegurðarinnar sem þar er að finna, ef ekki fróðleiksins.

„Það er ekkert fallegra en að sjá, sérstaklega á veturna, sundlaugar innan um snævi þakið land og fólkið í laugunum að slaka á eins og það sé á suðrænni strönd.“

Þá hvetur Jón Karl fólk að sjá myndina í Bíó Paradís á stóru tjaldi. Almennar sýningar hefjast frá og með 5. október næstkomandi.

Sundgarpurinn Stefán Þorleifsson á Neskaupsstað.