Matthew Broadhead, breskur ljósmyndari, kannar tengingar á milli jarðfræði, mannfræði, sögu og goðsagna í vísindaleiðöngrum NASA á Íslandi á árunum 1965 til 1967 í nýrri sýningu í Skoti Ljósmyndasafns Reykjavíkur sem opnar á morgun, föstudaginn 15. nóvember.

Geimhliðsstæða: Tunglið á jörðinni heitir sýningin sem vísar í þau svæði á jörðinni sem talin er bjóða upp á aðstæður áþekkar þeim sem eru á tunglinu og Mars, með tilliti til jarðfræði, umhverfis og líffræðilegra þátta. Ísland er jú, að sögn NASA, það landssvæði sem líkist tunglinu hvað mest.

Matthew er breskur ljósmyndari. Hann stundaði nám í ljósmyndum við háskólann í Brighton og lauk nýverið meistaranámi við West of England háskólann í Bristol.

Hann er staddur hér á landi og verður viðstaddur opnun sýningarinnar.

Matthew Broadhead

Hringdi beint í Örlyg Hnefil

Verkefnið hófst árið 2015 þegar Matthew byrjaði að kanna jarðfræðilegar og stjarneðlisfræðilegar tengingar í Suðureyjum við vesturströnd Skotlands en þá var hann að vinna að bakkalár verkefni sínu.

„Ég rakst á vefsíðu fyrir Könnunarsafnið á Húsavík. Ég ákvað að hringja í númerið sem ég fann á síðunni og fékk ég þá samband við Cape hótelið á Húsavík. Örlygur Hnefill Örlygsson safnstjóri svaraði símanum og við ræddum málin í rúmlega klukkustund. Ég heyrði greinilega að hann var ástríðufullur og hafði mikinn áhuga á að aðstoða mig,“ segir Matthew í samtali við Fréttablaðið.

„Ísland var hinn fullkomni staður til að rannsaka þetta efni því landslagið er svo fjölbreytt og óvenjulegt. Tímasetningin var líka fullkomin því ég þurfti að finna eitthvað djarft mál til að rannsaka fyrir bakkalár verkefni mitt. Þetta lenti líka á 50 ára afmæli vísindaleiðangurs NASA til Íslands. Allt þetta small saman en nú þurfti ég að læra allt frá grunni og finna minn eigin vinkil,“ segir Matthew.

„Í byrjun ferðalagsins gisti ég hjá fjölskyldu í Keflavík og fann þar eldflaug. Eftir það fór ég í könnunarleiðangur um Reykjanes og skoðaði Krýsuvík, Kleifarvatn, Reykjanesvirkjun og brúna á plötuskilum milli Evrópu og Ameríku. Síðan skoðaði ég Grábrók og gisti þá á hótel Bifröst. Grábrókarhraun var snævi þakið. Þá var ég aðallega að lesa um norræna goðafræði, um regnbogabrúna Bifröst og tenginguna milli heim manna og guða.“

Matthew Broadhead

Tunglið á jörðinni

Matthew segir að flestar ljósmyndir hans séu af Reykjanesi en hann hafi þó einnig skoðað Mývatn. Þar hafi hann hitt bónda sem hafði hitt og eytt miklum tíma með geimfaranum Neil Armstrong þegar hann fór að veiða í Laxá í Þingeyjarsýslu. Matthew tekur fram að hann hafi ekki einungis skoðað svæði þar sem geimfararnir voru við æfingar, heldur hafi hann einnig farið í leiðangur og tekið myndir við Kröflu og Dimmuborgir.

Matthew notast á við Hasselblad 500C/M myndavél í verkefnum sínum. Það er sama myndavél og margir geimfarar notuðu til að skrásetja æfingarferlið fyrir tungllendingarnar. Matthew hitti sjálfan Charlie Duke í júlí árið 2017, en það er geimfarinn af Apollo 16 tunglförinni. Hann skildi sjálfur eftir ljósmynd á tunglinu af fjölskyldu sinni.

Matthew segir það miður að lítið af ljósmyndum hafi verið teknar á þeim tíma sem geimfararnir voru hér á landi við æfingar. Lítið af upplýsingum séu til staðar fyrir utan nokkrar fréttagreinar. Hann segir ljósmyndasýningu sína snúast um að skoða þessa tíma í samhengi við norræna goðafræði, þar sem sagan sjálf er sveipuð dulúð. Geimfararnir eru goðsagnakenndir og Ísland eins og tunglið á jörðinni.

Ljósmyndarinn Matthew Broadhead.
Matthew Broadhead