Leit að breska leikaranum Julian Sands, sem saknað hefur verið í tíu daga, hefur enn engan árangur borið. Julian var á göngu í San Gabriel-fjöllum í Kaliforníu þegar hann hvarf.
Ekkert hefur spurst til leikarans síðan 13. janúar en vont veður hefur verið á þessum slóðum að undanförnu sem hefur gert leitarflokkum erfitt fyrir. San Gabriel-fjöll eru vinsælt útivistarsvæði þar sem vetraríþróttir eru meðal annars stundaðar.
Julian, sem er 65 ára, er búsettur í Hollywood en hann gerði garðinn frægan á árum áður í kvikmyndum á borð við A Room with a View, The Killing Fields, Naked Lunch, Leaving Las Vegas og Ocean‘s Thirteen.
Julian er ekki eini göngumaðurinn sem saknað er á þessum slóðum því leitarflokkar voru kallaðir út til leitar að öðrum manni, Bob Gregory, í gær. Alls hafa björgunarsveitir verið kallaðar út fjórtán sinnum síðustu fjórar vikur vegna fjallgöngufólks í vanda á svæðinu.