Jón Viðar Jóns­son, leik­listar­fræðingur og einn þekktasti gagn­rýnandi landsins, segir að breska konungs­fjöl­skyldan hafi í raun og veru átt þrjár virki­legar stjörnur. Það eru þau Ját­varður 8. Bret­lands­konungur og prinsessurnar Margrét og Díana.

Jón Viðar er gestur í þriðja þættinum af Crown­varpinu, við­hafnar­hlað­varpi Frétta­blaðsins um fimmtu seríu Net­flix þáttanna The Crown. Þáttinn má hlusta á neðst í fréttinni.

„Ein­hver vitur maður sagði, þó þetta sé alltaf bara hug­lægt mat, að fjöl­skyldan hefði bara átt þrjár virki­legar stjörnur,“ segir Jón Viðar.

Wallis Simpson og Játvarður bjuggu alla tíð í Bandaríkjunum eftir að Játvarður gaf frá sér krúnuna.

„Sá fyrsti er Ját­varður 8. Bret­lands­konungur að sögn gagn­rýnandans. Eins og frægt er orðið gaf Ját­varður frá sér konungstignina í desember 1936 til yngri bróður síns Georgs 6., föður Elísa­betar Bret­lands­­drottningar. Þetta gerði hann til að geta verið með hinni frá­­skyldu banda­rísku Wallis Simp­­son en þau giftust eftir að hann sagði af sér.

„Þetta var auð­vitað mjög sér­kenni­leg saga og auð­vitað er þetta heil­mikið drama, þessi kona þarna sprengir nánast upp krúnuna og hann var svona sjarmur,“ segir Jón Viðar.

„Ef þið skoðið myndir af honum þá var hann mjög fal­legur ungur maður og mikill kvenna­ljómi og play­boy og hann var vin­sæll meðal fólks. Þarna kom út­varpið og þá fór fólk að tengjast fjöl­skyldunni meira, þetta var allt öðru­vísi fyrir tíma nú­tíma fjöl­miðla.“

„Og svo var það náttúru­lega Díana. Hún var stór­kost­legt celebrity og svona stjarna. Og að lokum var það Margrét prinsessa. Hún hafði þennan hæfi­leika til þess að heilla fólk, var fljót og beitt og fyndin,“ segir Jón Viðar.

Díana var og er enn vinsæl.

„Hún var víst al­gjör­lega ó­þolandi sem manneskja, hún var trú­lega bara alkó­hól­isti og drakk frá sér heilsuna,“ segir gagnrýnandinn.

„Hún náttúru­lega lenti í þessum hremmingum þarna þegar hún fékk ekki að giftast Andrew Town­send.“

Margrét prinsessa átti ekki auðveldasta lífið.
Fréttablaðið/Getty

Fólk hefur nú dottið í það við minna til­efni?

„Já já og svo tók náttúru­lega við ó­lukku­legt hjóna­band en þau eignuðust hvað tvö börn hún og Lord Snowdon.“

Jón Viðar segir Margréti í raun hafa valið sér sitt hlut­skipti sjálf. „Hún hefði getað gifst honum Tow­send en þá hefði hún bara orðið að fara úr gullna búrinu sínu. Þá væri hún ekki lengur fín prinsessa heldur bara ein­hver Miss Town­send, sjálf­sagt í ein­hverju fínu bresku milli­stéttar­hverfi en þá hefði hún þurft að fara í búðirnar. Þetta fólk er ekki alið upp í svo­leiðis.“

Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.