Jón Viðar Jónsson, leiklistarfræðingur og einn þekktasti gagnrýnandi landsins, segir að breska konungsfjölskyldan hafi í raun og veru átt þrjár virkilegar stjörnur. Það eru þau Játvarður 8. Bretlandskonungur og prinsessurnar Margrét og Díana.
Jón Viðar er gestur í þriðja þættinum af Crownvarpinu, viðhafnarhlaðvarpi Fréttablaðsins um fimmtu seríu Netflix þáttanna The Crown. Þáttinn má hlusta á neðst í fréttinni.
„Einhver vitur maður sagði, þó þetta sé alltaf bara huglægt mat, að fjölskyldan hefði bara átt þrjár virkilegar stjörnur,“ segir Jón Viðar.

„Sá fyrsti er Játvarður 8. Bretlandskonungur að sögn gagnrýnandans. Eins og frægt er orðið gaf Játvarður frá sér konungstignina í desember 1936 til yngri bróður síns Georgs 6., föður Elísabetar Bretlandsdrottningar. Þetta gerði hann til að geta verið með hinni fráskyldu bandarísku Wallis Simpson en þau giftust eftir að hann sagði af sér.
„Þetta var auðvitað mjög sérkennileg saga og auðvitað er þetta heilmikið drama, þessi kona þarna sprengir nánast upp krúnuna og hann var svona sjarmur,“ segir Jón Viðar.
„Ef þið skoðið myndir af honum þá var hann mjög fallegur ungur maður og mikill kvennaljómi og playboy og hann var vinsæll meðal fólks. Þarna kom útvarpið og þá fór fólk að tengjast fjölskyldunni meira, þetta var allt öðruvísi fyrir tíma nútíma fjölmiðla.“
„Og svo var það náttúrulega Díana. Hún var stórkostlegt celebrity og svona stjarna. Og að lokum var það Margrét prinsessa. Hún hafði þennan hæfileika til þess að heilla fólk, var fljót og beitt og fyndin,“ segir Jón Viðar.

„Hún var víst algjörlega óþolandi sem manneskja, hún var trúlega bara alkóhólisti og drakk frá sér heilsuna,“ segir gagnrýnandinn.
„Hún náttúrulega lenti í þessum hremmingum þarna þegar hún fékk ekki að giftast Andrew Townsend.“

Fólk hefur nú dottið í það við minna tilefni?
„Já já og svo tók náttúrulega við ólukkulegt hjónaband en þau eignuðust hvað tvö börn hún og Lord Snowdon.“
Jón Viðar segir Margréti í raun hafa valið sér sitt hlutskipti sjálf. „Hún hefði getað gifst honum Towsend en þá hefði hún bara orðið að fara úr gullna búrinu sínu. Þá væri hún ekki lengur fín prinsessa heldur bara einhver Miss Townsend, sjálfsagt í einhverju fínu bresku millistéttarhverfi en þá hefði hún þurft að fara í búðirnar. Þetta fólk er ekki alið upp í svoleiðis.“
Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.