Stórleikarinn Arnar Jónsson stendur nú að hópfjármögnun fyrir nýjasta verkefni sitt, Ljóð í uppáhaldi, vínilplötu sem hann hyggst gefa út með úrvali eftirlætisljóða sinna.
„Þetta er náttúrlega spurning um að breiða út fagnaðarerindi ljóðsins. Ljóðið virðist vera töluvert mikið inni núna. Það er mikið af góðum ljóðskáldum og ungu fólki að skrifa sem er alveg æðislegt,“ segir Arnar.
Um er að ræða ljóð úr ýmsum áttum eftir ólík skáld og verður afraksturinn þrykktur á vínilplötu auk þess að vera fáanlegur á stafrænu formi. Spurður um hvers konar ljóð sé að ræða segir Arnar:
„Það getur verið allavega, þetta er bara eitthvað sem hefur lifað með mér mjög lengi. Meðgangan er löng og mikil. Þetta er náttúrlega bara eins og gott vín, það verður bara betra eftir því sem þú velkist meira með það.“
Arnar kveðst alla tíð hafa verið mikill ljóðaunnandi og segir að með verkefninu sé hann einnig að heiðra arfleifð læriföður síns, Lárusar Pálssonar, sem gaf út plötuna Lárus Pálsson leikari les ljóð, árið 1976.
„Ég er í rauninni að kinka kolli til mentora minna, eins og til dæmis Lárusar Pálssonar og margra annarra, erlendra og innlendra. Það hefur ekki verið gefin út vínilplata með ljóðum núna í mjög, mjög langan tíma. Hálfa öld eða svo. Þannig að nú er bara kominn tími á það,“ segir Arnar.
Arnar er einn þekktasti leikari þjóðarinnar og hefur starfað við leiklist í nærri sextíu ár en er langt frá því að setjast í helgan stein. Í tilefni áttræðisafmælis hans á næsta ári hyggst Arnar gefa íslensku þjóðinni heimasíðu með gagnabanka þar sem nálgast má upplestur hans á ýmsum textum.
„Það verður heimasíða þar sem verður mikið af textum, ljóðum, sögum og barnaefni, ég legg áherslu á það að hafa mikið af góðu barnaefni. Þetta verður opið og frítt í heilt ár þar sem fólk getur bara náð í það sem það langar til að hlusta á,“ segir Arnar.
Nánari upplýsingar um verkefnið Ljóð í uppáhaldi má finna á heimasíðu Karolina Fund.