Stór­leikarinn Arnar Jóns­son stendur nú að hóp­fjár­mögnun fyrir nýjasta verk­efni sitt, Ljóð í upp­á­haldi, vínil­plötu sem hann hyggst gefa út með úr­vali eftir­lætis­ljóða sinna.

„Þetta er náttúr­lega spurning um að breiða út fagnaðar­erindi ljóðsins. Ljóðið virðist vera tölu­vert mikið inni núna. Það er mikið af góðum ljóð­skáldum og ungu fólki að skrifa sem er alveg æðis­legt,“ segir Arnar.

Um er að ræða ljóð úr ýmsum áttum eftir ólík skáld og verður af­raksturinn þrykktur á vínil­plötu auk þess að vera fáan­legur á staf­rænu formi. Spurður um hvers konar ljóð sé að ræða segir Arnar:

„Það getur verið alla­vega, þetta er bara eitt­hvað sem hefur lifað með mér mjög lengi. Með­gangan er löng og mikil. Þetta er náttúr­lega bara eins og gott vín, það verður bara betra eftir því sem þú velkist meira með það.“

Arnar kveðst alla tíð hafa verið mikill ljóða­unnandi og segir að með verk­efninu sé hann einnig að heiðra arf­leifð læri­föður síns, Lárusar Páls­sonar, sem gaf út plötuna Lárus Páls­son leikari les ljóð, árið 1976.

„Ég er í rauninni að kinka kolli til mentora minna, eins og til dæmis Lárusar Páls­sonar og margra annarra, er­lendra og inn­lendra. Það hefur ekki verið gefin út vínil­plata með ljóðum núna í mjög, mjög langan tíma. Hálfa öld eða svo. Þannig að nú er bara kominn tími á það,“ segir Arnar.

Arnar er einn þekktasti leikari þjóðarinnar og hefur starfað við leik­list í nærri sex­tíu ár en er langt frá því að setjast í helgan stein. Í til­efni átt­ræðis­af­mælis hans á næsta ári hyggst Arnar gefa ís­lensku þjóðinni heima­síðu með gagna­banka þar sem nálgast má upp­lestur hans á ýmsum textum.

„Það verður heima­síða þar sem verður mikið af textum, ljóðum, sögum og barna­efni, ég legg á­herslu á það að hafa mikið af góðu barna­efni. Þetta verður opið og frítt í heilt ár þar sem fólk getur bara náð í það sem það langar til að hlusta á,“ segir Arnar.

Nánari upp­lýsingar um verk­efnið Ljóð í upp­á­haldi má finna á heima­síðu Karolina Fund.