Vinna við kvikmynd byggða á hinum vinsælu sjónvarpsþáttum Breaking Bad virðist vera í burðarliðnum, ef marka má heimildir erlendra fjölmiðla.

Kemur fram að höfundur þáttanna, Vince Gilligan, vinni nú að því að framleiða tveggja klukkustunda langa kvikmynd sem mun „gerast í Breaking Bad veröldinni.“ 

Samkvæmt upplýsingum staðarblaðsins The Albuquerque Journal í Nýju-Mexíkó munu tökur hefjast í Albuquerque í þessum mánuði. Tökur fara því fram á sama stað og tökur Breaking bad sjónvarpsþáttanna.

Mun vinnuheiti kvikmyndarinnar vera Greeenbrier og á söguþráður myndarinnar að hverfast um „flótta manns úr höndum mannræningja og vegferð hans að frelsi.“ 

Lítið er annars vitað um efnistök myndarinnar, eða hvort leikararnir Bryan Cranston og Aaron Paul auk annarra leikara sem fóru með hlutverk í Breaking Bad þáttunum muni birtast í myndinni í upphaflegum hlutverkum sínum. Þá er ekki ljóst hvort myndin verði sýnd í kvikmyndahúsum eða á streymisveitum.