Leikkonan Steiney Skúladóttir, opnar sig um það þegar hún braust inn í sundlaug eitt skiptið um nótt og stundaði þar skyndikynni ofan í heita potti. Opinberunina er að finna í nýjasta þættinum af Einhleyp, einmana og eirðarlaus, útvarpsþætti í Útvarpi 101.

Í þættinum ræða þau Steiney og meðstjórnandi hennar Pálmi Freyr Hauksson ýmis misalvarleg lögbrot sem þau gerðust sek um sem hluti af áskoruninni utanrammareynslu.

Utanrammareynslan er keppni á milli þáttastjórnendanna um að gera eitthvað sem þau hafa ekki gert áður, utan þægindarammans. Þátturinn er ætíð tekinn upp á léttu nótunum og láta þáttastjórnendur það liggja á milli hluta hve mikil alvara fylgir frásögnum.

„Við ákváðum semsagt að fara á deit og ég sting upp á því að við brjótumst inn í sundlaug,“ segir Steiney sem tekur fram að hún ætli sér ekki að gefa upp um hvaða sundlaug sé að ræða.

„Og allt sem ég er að segja núna er náttúrulega ekki satt, ég er að búa til sögur,“ segir Steiney eftir að Pálmi bendir henni hlæjandi á að lögreglan gæti verið við hlustir.

„Við brutumst inn í sundlaug, þar var pottur og við vorum eitthvað þar. Og svo riðum við í pottinum,“ segir Steiney.

„Þannig að þetta var mikil reynsla fyrir mig af því að ég hef aldrei brotist inn í sundlaug áður og aldrei riðið í potti,“ segir hún og hlær.

Tvöfalt bannað

„Þetta er það sem ég gerði. Og ég var svo stolt af mér og ég er svo stolt af mér. Og þetta var svo gaman. Og spilar inní af hverju ég er búinn að vera svo high on life, því ég fékk þarna svo mikið kick fyrir adrenalínfíkn sem ég er með.

Ég er sökker fyrir rússíbönum og þannig en hef ekki getað farið því ég lenti í bílslysi þannig axlirnar mínar eru í hakki. En svo er ég samt líka svo ógeðslega skynsöm,“ segir Steiney.

Hún segist hafa hugsað hvað hún væri að gera rétt áður en hún framdi brotið. „Því þetta er tvöfalt bannað. Bæði er þetta bannað því það er lokað í sundlauginni en líka bannað af því að það er COVID. Svo rétt áður en ég fór heyrði ég af því að einhvern tímann hefði Ingó Veðurguð brotist í sundlaug í Vestmannaeyjum og það hefði bara verið úti um allt,“ segir Steiney.

Hann hafi verið gerður að blóraböggli fyrir alla sem hefðu einhvern tímann stolist í sundlaugar. „Þetta gæti mjög auðveldlega farið í fjölmiðla,“ segir Pálmi við hlátrasköll beggja.