Heimildarmyndin Atomy er afrakstur þess að leikstjórinn og framleiðandinn Logi Hilmarsson fylgdi fjölfatlaða listamanninum Brandi Karlssyni eftir í þrjú ár á meðan hann fór í gegnum óhefðbundna meðferð hjá heilaranum Rahul í Nepal.

„Viðbrögðin við myndinni eru búin að vera rosaleg. Alveg yfirþyrmandi bara. Fólk er að gráta og hlæja yfir henni og kemur síðan til mín eftir á og talar um hvað þetta hafi veitt þeim mikinn innblástur,“ segir Brandur.

„Það er líka einhver ábyrgð í því sem er svolítið áhugaverð og minnir mann á að halda áfram og að þetta er ekki búið ennþá.“

Brandur segist viss um að örlögin hafi leitt þá Rahul saman en þar sem Brandur var með laust aukaherbergi þáði heilarinn gistingu hjá honum þegar hann kom til Íslands að halda námskeið.

„Þannig að við erum mjög örlagatrúar í þessu öllu saman og trúum að þetta hafi einhvern veginn átt að gerast.“

Ljúflingurinn Rahul gaf ekkert eftir og gerði það sem gera þurfti.
Fréttablaðið/Aðsend mynd

Kraftaverk í Nepal

Þegar Rahul var búinn að vera með námskeið hérna í þrjú ár bauð hann Brandi að koma með sér til Nepal þar sem hann gæti hjálpað honum að endurheimta hreyfigetuna og ganga á ný innan árs.

„Hann hugsaði þetta sem einhvers konar æfingabúðir með því að taka mig út úr mínum daglega þægindaramma og fara bara til Nepal. Framfarirnar sem urðu þarna úti voru bara kraftaverki líkastar,“ segir Brandur um meðferðina sem hefur reynst svo áhrifarík að hann hefur öðlast mikla hreyfigetu í kjölfarið.

„Þegar þú ert eins og ég var búinn að vera, liggjandi í mörg, mörg ár uppi í rúmi, þá þarf svolítinn kraft til að koma manni í gang og það var það sem ég fékk þarna. Þetta vakti mig svolítið upp frá dauðum.“ Hann segir meðferðina hafa verið heilmikið ferli sem ekki sér fyrir endann á.

„Við byrjuðum á líkamanum en svo fattaði ég með tímanum að hugurinn er alveg jafn mikil fyrirstaða og líkaminn. Núna erum við svolítið mikið að fókusa á það.“

Efasemdamaður í eðli sínu

Brandur og Alma, kærastan hans, héldu ásamt aðstoðarmönnum sínum til Nepal 2019 og í myndinni er lögð megináhersla á fyrsta mánuð meðferðarinnar þar og svo eftirfylgnina og framvindu áhrifa hennar á líf og ástand Brands.


„Ég held að við Logi séum báðir mjög fegnir að þetta sé búið,“ segir Brandur um þriggja ára heimildarmyndargerðina sem þeir félagar hafa uppskorið mikið lof fyrir.

Brandur segir þó aðspurður að innan um allt hrósið og þakkirnar heyrist vissulega einnig efasemda­raddir um lækningamátt Rahuls. Hann kippi sér þó ekkert upp við slíkt. „Ég er sjálfur mjög skeptískur að eðlisfari og það hefur kannski alltaf staðið pínu í vegi fyrir mér.

En það sem vegur náttúrlega bara á móti er að ég er búinn að vera með Rahul úti í Nepal og sjá hann gera svo ótrúlega hluti. Hvort sem ég trúi öllu sem hann segir og gerir þá skiptir það orðið ekkert máli. Ég veit að hann getur hluti sem aðrir geta ekki.“

Sýningar á Atomy hófust í Bíó Paradís undir lok janúar og aðeins tvær sýningar eru eftir. Á laugardaginn klukkan 14.30 og á þriðjudaginn klukkan 16.30.

Poster