Haukur Bragason er líklega helst þekktur sem einn vinsælasti Twitter-notandi Íslands, en hann starfar sjálfstætt við málfarsráðgjöf, prófarkalestur og textagerð. Haukur verður seint þekktur fyrir ósmekklegt og sóðalegt útlit, en hann er mikið fyrir að vera flottur í tauinu og á að eigin sögn vandræðalega mikið af jakkafötum. Fyrir nokkrum árum brá hann hins vegar út af vananum og keypti einhver ljótustu jakkaföt sem sögur fara af, í gríni. Hér verður saga þessa tískuslyss rakin.

„Herrafatnaður er eitt af mínum áhugamálum og ég á vandræðalega mikið af jakkafötum, stökum jökkum og svo framvegis,“ segir Haukur. „Ég fer líka alltaf í mitt fínasta púss á jólunum. Það er leitun að manni sem óttast jólaköttinn eins skelfilega mikið og ég. Ég tek enga sénsa og fæ mér eitthvað fallegt fyrir hver jól. En kórónuveirufaraldurinn hefur hins vegar séð til þess að ég hef verið að kynna mér kósíföt í auknum mæli og hef lítið klætt mig upp. Ég verð nú líka að viðurkenna að það er töluvert þægilegra að vera í joggingbuxum og bol...“

Hans eigin útgáfa af ljótri jólapeysu

„Ég keypti mér brandara í formi þessara jakkafata árið 2014. Þetta var mitt „take“ á ljótu jólapeysuna, sem var þá töluvert vinsælla dæmi en það er í dag. Ég fann þau í Hollandi, en þetta er hollenskt fyrirtæki sem hóf rekstur kringum það að selja appelsínugul föt til stuðnings landsliðinu þeirra (Oranje!),“ útskýrir Haukur. „Þau eru úr pólýester og það er algjörlega viðbjóðslegt að vera í þeim enda hef ég bara gert það þrisvar eða fjórum sinnum. Þau sitja nú bara í geymslunni núna og skammast sín fyrir að vera algjörlega óþarft kolefnisspor og úreltur brandari.

Haukur setti þessa mynd á Twitter þegar hann mætti í vinnuna í jakkanum og skrifaði: „Jólapeysudagurinn sem átti að vera í vinnunni í dag... Já, hann sem sagt er ekki. Það var hætt við þetta. Ég er einn svona.“ MYND/AÐSEND

Ætli þetta sé ekki ofarlega á lista yfir verstu fatakaup sem ég hef gert, ásamt peysu sem hljóp svo svakalega í þvotti að dóttir mín sem þá var 10 ára passaði í hana (og notaði handa reyndar nokkrum sinnum!),“ viðurkennir Haukur.

Eftirminnilegur eins manns jólapeysudagur í vinnunni

Það fóru að renna á Hauk tvær grímur þegar hann sá að hann hefði mögulega verið „trendsetter“, alveg óvart.

„Eftir að hafa nýtt þetta sem ágætis brandara tvenn jól í röð fór íslenskt vefsölufyrirtæki að selja föt frá þessu hollenska fyrirtæki og maður fór að sjá fólk í þessu út um allan bæ,“ segir Haukur. „Þegar ónefndur stjörnulögfræðingur birtist í blaði í nákvæmlega eins fötum og ég á þá var brandarinn úrskurðaður í gæsluvarðhald og hefur fengið að dúsa í (fanga)geymslu síðan þá.“

En áður en fötin enduðu á ruslahaug sögunnar gerði Haukur þau mistök að mæta í jakkanum í vinnuna.

„Ég var nýlega byrjaður á nýjum vinnustað og það var talað um að það ætti að vera jólapeysudagur. Ég mætti í jakkanum (sem betur fer ekki buxunum) og komst að því þegar ég var búinn að sjá nokkra sem ég hélt fyrst að væru bara fýlupokar sem vildu ekki taka þátt að það hefði verið sendur út tölvupóstur og jólapeysudeginum frestað, því hluti starfsmanna var að fara út í bæ á námskeið eða eitthvað. Ég fékk hins vegar engan tölvupóst, því það var ekki búið að bæta mér inn á listann yfir alla starfsmenn vegna þess að ég var nýbyrjaður. Þetta var erfiður dagur,“ segir Haukur léttur.


Haukur Bragason er að setja vefsíðuna www.haukurbragason.com í loftið í þessari viku og þar geta áhugasamir kynnt sér störf hans.