Allir þekkja spurninguna um hvað sé í matinn. Réttir þurfa ekkert endilega að vera flóknir til að vera góðir. Hér eru góðar uppástungur um hversdagsmat.

Þessi gómsæta gulrótasúpa inniheldur skemmtileg asísk krydd. Mjög góð og vítamínrík súpa sem hentar vel þegar kólna fer í veðri.

Gulrótasúpa

Uppskriftin miðast við fjóra

6 stórar gulrætur

1 laukur

2 hvítlauksrif

3 dl kókosmjólk

3-5 dl kjúklinga- eða grænmetissoð

2 tsk. kóríanderfræ

1 tsk. heil, ristuð piparkorn

1 tsk. garam masala

½ tsk. cumin

1 tsk. engifer, rifin

Safi úr 1 límónu

Salt og pipar eftir smekk

Ferskt kóríander

Chilli-flögur

Hitið ofninn í 175°C. Skrælið laukinn og skerið niður ásamt gulrótum og hvítlauk. Grænmetið á að baka í um það bil 20 mínútur eða þar til gulræturnar eru orðnar mjúkar. Setjið piparkorn og kóríanderfræ á þurra steikarpönnu á miðlungs hita. Ristið þar til kryddilmur berst. Setjið í mortel og maukið.

Látið suðuna koma upp í soðinu. Má nota vatn og súputening. Setjið grænmetið í pottinn og látið allt sjóða saman, því næst er kókosmjólk sett saman við. Maukið súpuna með töfrasprota, kryddið hana og bragðbætið með salti og pipar.

Setjið í súpuskálar og skreytið með fersku kóríander og chilli-flögum. Með súpunni er gott að hafa nýbakað brauð en uppskrift fylgir hér.

Auðvelt að baka

Nýbakað heimagert brauð er alltaf mjög gott. Hér er uppskrift að góðu brauði sem einfalt er að gera. Uppskriftin ætti að duga í tvö brauð. Það má skipta hveiti út fyrir heilhveiti ef fólk vill hafa það grófara.

Heimabakað brauð

100 g smjör

6,5 dl mjólk

1 pakki þurrger

1 kg. hveiti

2 tsk. salt

2 tsk. sykur

1 egg

1 egg til að pensla með

4 msk. sesamfræ

Byrjið á að bræða smjörið. Bætið því næst mjólkinni við og hitið upp í 37°C eða fingurvolgt. Setjið gerið út í blönduna. Hveiti, salt og sykur sett í hrærivélaskál og hnoðað smávegis. Setjið eggið í skál og hrærið. Síðan sett út í þurrblönduna ásamt gerblöndunni. Hnoðið deigið vel og látið síðan hefast undir plastfilmu í að minnsta kosti eina klukkustund.

Skiptið deiginu í tvennt og setjið í tvö aflöng vel smurð form. Penslið með egginu og stráið sesamfræjum yfir. Látið hvíla í 30 mínútur. Hitið ofninn í 200°C og bakið brauðið í 40 mínútur. Afkælið á rist.

Sterkur og góður chili con carne. Eftirlæti margra.

Frá Texas

Chili con carne þýðir í rauninni Chilli með kjöti. Þetta er ekki ekta mexíkóskur matur heldur á rétturinn rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna, líklega Texas. Þetta er bragðgóður matur sem hentar vel ef fólk vill eitthvað sterkt og gott. Uppskriftin er einföld og miðast við fjóra.

Chili Con Carne

400 g nautahakk

2 msk. smjör eða olía til steikingar

1 laukur, fínt hakkaður

2 hvítlauksrif, smátt skorin

1 chilli-pipar, smátt skorinn

1 dós tómatar

1 dós chilli-baunir

1 rauð paprika, skorin í bita

1 græn paprika, skorin í bita

1½ tsk. chilli-duft

½ tsk. cumin

½ tsk. salt

Setjið olíu eða smjör í pott og brúnið hakkið með lauk, hvítlauk og chilli.

Hellið tómötunum yfir og leyfið öllu að malla í 4 mínútur. Bætið þá við chilli-baunum, papriku og kryddum. Látið malla áfram í nokkrar mínútur.

Bragðbætið með salti ef með þarf og chilli ef rétturinn þarf að vera sterkari. Berið fram með góðu brauði.