Rithöfundahjónin Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Bragi Páll Sigurðsson hafa bæði verið tilnefnd til íslensku hljóðbókaverðlauna Storytel 2022. Bergþóra fyrir skáldsöguna Svínshöfuð og Bragi fyrir skáldsöguna Arnaldur Indriðason deyr.

Bergþóra segir stemninguna á heimilinu góða en viðurkennir að það sé góðlátlegur rígur á milli hjónanna. Stórskotalið les upp bók Bergþóru á Storytel, þau Sveinn Ólafur Gunnarsson, Mikael Kaaber og Aníta Briem.

„Egill Viðarsson upptökuséní er algjör snillingur og gerði þetta rosalega vel. Hann lagði rosalega mikinn metnað í þetta og var lengi að finna réttu leikarana,“ segir Bergþóra.

Hún segir sex ára dóttur sína mikinn aðdáanda Mikaels, enda annast hann Krakkaskaupið. „Hún heldur að ég þekki hann og er mikið að spyrja mig hvort hann sé sjálfur pabbi, sem ég veit ekkert um,“ segir Bergþóra hlæjandi. Hún segir þau Braga hafa gaman af samkeppninni.

„Okkur finnst bara gaman að ná að vera í smá samkeppni af því að við gáfum bækurnar okkar út á sitt hvoru árinu. En hann er samt held ég sölukóngurinn á heimilinu. Hann seldi held ég aðeins meira heldur en ég síðast,“ segir Bergþóra.

Hlæjandi segir hún Braga alls ekkert góðan með sig.

„En ég held að hann hafi náð að mjaka mér úr hásætinu.“