Bandarískir slúðurmiðlar keppast nú við að greina frá því að leikarinn Brad Pitt hafi verið meðal gesta í fimmtugsafmæli leikkonunnar Jennifer Aniston á laugardagskvöld en leikararnir skildu að borði og sæng árið 2005, eftir fimm ára hjónaband.

Aniston hélt upp á stórafmælið með pompi og prakt í Sunset turninum í Los Angeles og má með sanni segja að afmælispartýið hafi verið stjörnum prýtt en meðal gesta voru Reese Witherspoon, Ellen DeGeneres, Kate Hudson, Gwyneth Paltrow, Cindy Crawford, Robert Downey Jr, Jason Bateman, John Mayer, Katy Perry og Orlando Bloom.

Um er að ræða fyrsta skiptið sem að Anniston og Pitt sjást saman á opinberum vettvangi síðan að þau skildu fyrir meira en áratug síðan en líkt og alkunna er tók Brad Pitt saman við leikkonuna Angelinu Jolie á meðan þau léku saman í kvikmyndinni Mr and Mrs. Smith en hann og Anniston voru enn gift á meðan tökum myndarinnar stóð. Þau hafa þó ítrekað sagst vera í góðu bandi undanfarin ár. 

Síðan þá hafa þau bæði hætt með mökum sínum, Anniston með Justin Theroux og eru því bæði einhleyp um þessar mundir. Virðast fréttamenn bandarísku slúðurmiðlanna því velta fyrir sér hvort að Brad og Jennifer séu við það að fella hugi saman að nýju en ónefndur heimildarmaður E News segir svo ekki vera.

„Einhver skilaði því til Brad að hann væri velkominn í partýið og hann þáði það. Hann vildi styðja Jen og þetta var stórt tilefni. En það er allt og sumt. Þetta var stórt kvöld með mikið af fólki, þau eru klárlega ekki í sambandi eða á leið í samband. Þau eru vinir en það er ekkert meira en það.“