Nánar tiltekið má nefna að árið 2016 voru sundlaugarnar 163 talsins um land allt. Þess má geta fyrir áhugamenn og -konur um laugar á Íslandi að á vefnum sundlaugar.com er hægt að skrá sig inn og haka við þær laugar sem fólk hefur sótt. Þannig er auðvelt fyrir alla að halda utan um sundlaugaheimsóknir sínar og komast að því hverjar eru eftir. Það kemur eflaust flestum á óvart hve fáar laugar það hefur raunverulega sótt heim.

Hið forna bað

Frá fyrstu tíð hafa Íslendingar notað jarðvarma landsins til böðunar enda hefur jarðhitavatnið óneitanlega verið eitthvað sem heillaði kalda og blauta landnema. Vitað er um þrettán laugar sem Íslendingar til forna notuðu sem baðstaði en einungis fáar af þeim eru nothæfar enn í dag. Snorralaug í Reykholti við Hvítársíðu, sem kennd er við Snorra Sturluson (1178-1241), er ein þeirra þrettán upprunalegu og er talin hafa verið hlaðin á 13. öld. Tveir aðalhverir finnast þar, Skrifla og Dynkur. Á tímum Snorra var vatni veitt í Snorralaug úr Skriflu eftir um 120 m löngum neðanjarðarstokki. Baðlauga í Reykholti er oft getið í gömlum heimildum enda hefur þetta þótt sérlega áhugaverð framkvæmd. Frá lauginni lágu jarðgöng til bæjarhúsa Snorra og hafa þau verið grafin upp að hluta. Laugin sjálf eins og hún er í dag er ekki upprunaleg heldur endurgerð í þeirri mynd sem talið er að hún hafi verið í. Ekki er leyfilegt að baða sig í Snorralaug og er það heldur ekki æskilegt. Hverinn Skrifla hefur tekið nokkrum breytingum frá þrettándu öld og vatnið sem lekur í laugina er sjaldnast við hentugan baðhita.

Endurreisn sundsins

Almennt er talið að Íslendingar hafi verið syndir til forna en eftir því sem á leið fór sundkunnátta Íslendinga dvínandi. Á ákveðnum tímapunkti þótti ástæða til að brydda upp á sundkennslu á ný enda sérlega nýtileg íþrótt fyrir þjóð sem lifði að stórum hluta á fiskimiðum landsins. Samkvæmt Sarpi, menningarsögulegu gagnasafni á netinu, var fyrsta sundnámskeiðið haldið á Íslandi árið 1821 af Jóni Þorlákssyni Kjærnested í sundhyl í Reistará í Eyjafirði. Einnig stóð hann fyrir sundkennslu í Steinsstaðalaug og er talið vel líklegt að Fjölnismenn, eða einhverjir þeirra, hafi þá verið meðal nemenda Jóns síðar enda voru Jónas Hallgrímsson og Brynjólfur Pétursson við nám í Goðdölum og Konráð Gíslason átti heima skammt frá. Jón var síðan með sundkennslu í Laugalæknum í Reykjavík árið 1824. Seinna var lækurinn stíflaður, breikkaður og dýpkaður, svo lítil laug myndaðist.

Árið 1884 var fyrsta sundfélag Íslands stofnað en það bar nafnið Sundfélag Reykjavíkur. Þegar ungmennafélög voru stofnuð í upphafi tuttugustu aldar fóru þau í að hlaða sundstaði víða. Þá hlóðu þau sundgarða og bjuggu til hyli í lækjum og ám, með jarðhita jafnt sem ísköldu bergvatni. Fyrsta steypta sundlaugin á Íslandi var gerð í Laugardal við Reykjavík árið 1908 þar sem heitu vatni úr Þvottalaugunum var veitt í laugina og köldu úr Gvendarbrunnum. Eftir árið 1930 fjölgaði byggingu sundlauga á Íslandi mikið, og á árunum 1931-1950 voru 44 sundlaugar byggðar.

Staðreyndir um klór

Langalgengasta sótthreinsiefnið í sundlaugum hér á landi í dag er klór, en í vatni myndar klórlausnin svokallaða hýpóklórsýru. Hitaveituvatn í Reykjavík er afar basískt með PH-gildi í allt að 9,5. Svo basískt umhverfi gerir klórinn nánast óvirkan sem hreinsiefni. Vandinn er oftast leystur þannig að vatnið er gert súrara til þess að vega upp á móti basísku umhverfinu. Til þess er oft notuð saltsýra og að undanförnu hefur aukning verið í notkun kolsýru. Ástæðan fyrir óþægindum sem baðgestir kvarta stundum undan, eins og klórlykt, augnsviða og fleira, er til komin vegna of mikilla klóramína í laugarvatninu. En klóramín eru efni sem myndast þegar klór „oxar“ svita og þvag frá sundlaugargestum, þ.e. svitinn og þvagið taka til sín súrefnisatóm frá klórnum. Hin eiginlega klórlykt kemur því ekki af klórnum sjálfum heldur afleiðingum hans.

Í dag er svo komið að Íslendingar ljúka ekki skólakyldu sinni nema vera orðnir syndir og mælist sundkunnátta á Íslandi með hæsta móti í heiminum. Sund er ein helsta almenningsíþrótt Íslendinga og sækja margir sundstaði daglega, hvort sem ætlunin er að telja ferðir í djúpu lauginni eða skeggræða pólitík í heita pottinum. ■