Þegar kemur að því að dekka pallinn fyrir sumarið er Jói með á hreinu hvað er ómissandi að hafa á pallinum. „Blóm, gott grill og auðvitað húsgögn, svo kemur búbblan líka sterk inn. Að endingu eru það góðir vinir, en þeir gera alla palla flotta,“ segir Jói og nýtur þess í botn að taka á móti gestum á pallinum. Kiddý er iðin við að fegra pallinn með fallegum blómapottum og fylgihlutum sem gleðja augað. Veislan birtist í þættinum Matur og heimili á Hringbraut á dögunum.

Grillmatur góður fyrir sálina

Jói og Kiddý grilla oft og allt árið um kring. „Við grillum frekar mikið og jafnvel að vetri til líka. Það er voða gaman að grilla á veturna í góðu veðri, maður þarf bara að klæða sig eftir aðstæðum. Góður grillmatur gerir eitthvað svo mikið fyrir sálina.“ Jói segir að það fari eftir skapinu hvað honum finnst skemmtilegast að grilla hverju sinni og hvað hann langar í. „Við grillum sennilega mest lambakjöt og kjúkling. Þá byrjum við oft á því að grilla pylsur, undir því yfirskini að þær séu fyrir börnin, það er flottur og góður forréttur á grillið. Eins er mjög gaman að grilla risarækjur í sama tilgangi. Svo eru hamborgarar alltaf klassískir á grillið. Ætli mér finnist samt ekki skemmtilegast að grilla lamba-prime, það er svo rosalega gott líka. Í fyrra eignaðist ég svo draumagrillið, þegar Kiddý, stelpurnar mínar og fjölskyldur gáfu mér Kamado-grill í afmælisgjöf. Þetta er einfaldlega langbesta grill sem ég hef átt, það er bara þannig.“

Serbl_Myndatexti:Þessi máltíð lítur afskaplega vel út svo ekki sé meira sagt.

Tvö töfratrix lykilatriðið

Hvað eru helstu töfratrixin þegar hamborgari er grillaður?

„Það eru tvö trix sem eru lykilatriði áður en þú byrjar, gott kjöt og góð kol. Þegar ég grilla hamborgara, vil ég helst hafa góðan hita á grillinu og grilla borgarann í um það bil þrjár til fjórar mínútur á hlið. Það fer þó auðvitað eftir þykkt borgarans. Ég krydda alltaf eftir á, því ég vil ekki að saltið dragi vökvann úr kjötinu á meðan ég er að grilla. Já, og alls ekki þrýsta ofan á borgarann með steikarspaðanum ALDREI, það pressar bara safann úr borgaranum. Svo er lykilatriði að hvíla kjötið aðeins á fati, áður en borgarinn er settur saman. Alveg nákvæmlega eins og maður gerir með góða steik.“

Aðalatriðið þegar steikja á hamborgara er að kaupa gott kjöt. „Ég vil helst hafa að minnsta kosti 20% fituinnihald í kjötinu. Það bindur kjötið betur saman og gerir borgarann líka miklu bragðmeiri og bragðbetri.“

Jói grillar eplaskífur og setur á sælkeraborgarann.

Kartöflur eða grasker

Þegar kemur að því að velja meðlæti með grilluðum sælkerahamborgara hvað finnst þér best?

„Stundum vil ég bara hafa þetta klassíska og enga stæla, svo koma tímar þar sem mig langar að gera eitthvað skemmtilegt. Ég vil samt helst alltaf hafa einhvers konar salat með, það er svolítið mikið sumar í því. Sveppir og laukur eru nánast ómissandi, þó ég bregði nú stundum út af þeim vana. Loks þarf að hafa með kartöflur eða grasker í einhverri útgáfu.“

Hér ljóstrar Jói upp uppskriftinni af sínum uppáhalds sælkerahamborgara sem hann grillaði í þættinum Matur og heimili ásamt meðlætinu. „Ef borgarinn er rétt steiktur verður hann mjög safaríkur og bragðgóður og því í raun algjör óþarfi að setja á hann mikla dressingu. Í þessu tilfelli notaði ég smá trufflukrem og svo bara beikonsultuna, það þarf ekkert meira.“

Jói og Kiddý sitja til hægri á myndinni en gestir þeirra eru Carola Ida Köhler og Jón Viðar Guðjónsson. FRÉTTABLAÐIÐ/STEFÁN

Bötlers-borgarinn

Fyrir 4

4 stk. Smash hamborgarar 140 g frá Ferskum kjötvörum (fást í Bónus)

4 stk. kartöfluhamborgarabrauð eða hamborgarabrauð með sesamfræjum frá Bónus

trufflukrem (fæst í Hagkaup)

fallegt salatblað frá Lambhaga (fæst í Bónus)

grilluð eplasneið (honey crunch, fæst í Bónus)

beikonsulta

andalifur eða andalifrarkæfa

að endingu raspa svarta trufflu yfir herlegheitin

Beikonsulta að hætti Bötlersins

400 g beikonkurl

1 meðalstór laukur, saxaður

4 stk. shallotlaukar, saxaðir

2 stk. hvítlauksgeirar, saxaðir

100 g púðursykur

200 g hlynsíróp

80 g eplaedik

1 tsk. chili duft

nokkrar niðursoðnar fíkjur eða döðlur (ef það er gert er gott að minnka aðeins sírópið á móti)

Byrjið á því að steikja beikonið á rúmlega miðlungshita, þar til það er orðið gyllt og stökkt og færið það yfir á eldhúspappír. Ef það er mikil fita eftir á pönnunni er gott að skilja eftir u.þ.b. eina matskeið. Lækkið aðeins hitann undir pönnunni og setjið svo lauk og shallotlauk á pönnuna. Leyfið lauknum að karamelíserast á pönnunni og hrærið oft í, tekur 10-15 mínútur. Bætið hvítlauknum, púðursykrinum, hlynsírópinu, eplaedikinu og chili duftinu út í og þar næst beikoninu. Það má gjarnan sjóða í blöndunni og lækkið svo hitann. Sjóðið vökvann töluvert niður, þar til hann er orðinn þykkur og sultukenndur, í 7 til 10 mínútur. Beikonsultuna er hægt að setja í krukkur og nota við hin ýmsu tækifæri, en gott er að bíða þar til sultan hefur kólnað. Gott að bera fram með ostum og kexi, og svo er þetta auðvitað fullkomið með hamborgunum.

Volgt graskerssalat

Grasker skorið í teninga og steikt á pönnu við frekar lágan hita í u.þ.b. 10 mínútur upp úr Olio Nitti ólífuuolíu. Passið að steikja það ekki of lengi, það er best að hafa smá bit í graskerinu. Bæta 2 söxuðum hvítlauksgeirum við og salta og pipra eftir smekk. Láta kólna aðeins í skál í 10 mínútur eða svo. Blandið saman spínati eða spínatkáli og graskerinu. Setjið í skál eða á disk, og setjið skorin jarðarber, ristaðar furuhnetur og fetaost yfir. Að endingu salta og pipra og hella góðum slurk af Olio Nitti yfir. Þetta má líka gera við sætar kartöflur eða jafnvel bara venjulegar. Mjög gott að setja steikt beikon eða steikta parmaskinku í þetta salat, ef maður er ekki með beikonsultuna og jafnvel saxaðar döðlur eða fíkjur.