Matarbloggarinn og matgæðingurinn annálaði Albert Eiríksson hefur, af augljósum ástæðum, beint sjónum sínum að Úkraínu undanfarið og deilt uppskriftum að réttum og kræsingum frá hinu stríðshrjáða landi.

„Úkraína er gjarnan kölluð brauðkarfa Evrópu. Þarna eru frjósamir akrar og mikið af góðum brauðuppskriftum kemur frá Úkraínu,“ segir Albert og leggur áherslu á að fjölbreytnin og úrvalið sé mikið þegar matur er annars vegar.

Angandi sameiningartákn

„Úkraínumenn borða mikið af grænmeti og svínakjöti, en auðvitað er landið stórt og mataræðið fjölbreytt eftir því,“ heldur Albert áfram. Þekktasti rétturinn frá landinu er enda tvímælalaust úkraínsk rauðrófusúpa, borst.

„Sem Rússarnir að sjálfsögðu stálu og eignuðu sér, eins og margt annað,“ segir Albert um þetta fljótandi sameiningartákn sem Rússar reyndu að gera að sínu fyrir margt löngu.

„Súpan er ekki bara algengur réttur á borðum í Úkraínu. Hún er sameiningartákn. Ilmurinn er lokkandi og býður upp á notalega hlýju og friðartilfinningu,“ heldur Albert áfram og bendir á að besta leiðin til að kynnast menningu þjóða sé í gegnum bragðlaukana.

„Þegar við Bergþór ferðumst þá förum við alltaf í svona matargönguferðir. Mæli sko með því. Eftir að hafa gert þetta úkraínska eldhústilraunaverkefni þá langar mig mikið að fara til Úkraínu síðar.“

Gott verður betra

Páskabrauðið, sem Albert birti uppskrift að í vikunni, er þeirrar náttúru að það þykir jafnvel verða betra daginn eftir. „Þau eru ekkert mikið að sletta rjóma og smjöri á allt eins og við. Páskabrauðið er rifið og borðað eintómt.“

Albert leitar, í þessum matarleiðangri sínum um frjóar lendur Úkraínu, til tveggja úkraínskra vinkvenna sinna, óperusöngkonunnar Alexandra Chernyshova og annarrar sem kýs að vera nafnlaus á þessum viðsjárverðu átakatímum.

Albert kynnti Kænugarðstertuna til leiks á þriðjudaginn og var einmitt á góðri leið með að klára hana þegar Fréttablaðið truflaði hann í gær. „Einfalda útskýringin á Kænugarðstertu er: Tveir svampbotnar, heslihnetumarengs á milli og krem,“ segir Albert. „Klárlega ein besta terta sem ég hef bragðað á og engin furða að hún sé svona þekkt og vinsæl,“ segir Albert þótt hann megi vart mæla fyrir munnvatnsframleiðslu.

„Svampbotn, heslihnetumarengs, apríkósusulta … þetta er ótrúleg kaka,“ bætir hann við nánast dreyminn áður en hann svarar því hvort kakan sé líkleg til þess að slá í gegn í fermingarveislum sem eru fram undan. „Alveg pottþétt! Hún er geggjuð.“

Úkraínsku uppskriftirnar hans Alberts er að finna á heimasíðunni alberteldar.com en hann deilir hér einnig því sem helst bar á hans góma í þessu bragðgóða spjalli.

Kænugarðsterta – Kiev cake – Київський торт

Botn

5 egg

¾ b sykur

1 b hveiti

⅓ tsk. salt

Þeytið vel saman egg og sykur.

Bætið við hveiti og salti.

Bakið í tertuformi við 170°C í um 25 mínútur.

Látið kólna.

Heslihnetumarengs

6 eggjahvítur

1 ⅓ b sykur

1 b saxaðar heslihnetur

Stífþeytið eggjahvítur og sykur, bætið heslihnetum saman við.

Bakið í jafnstóru formi og botninn á 150°C í um 3 klst.

Látið kólna.

Krem

6 eggjarauður

8 msk. vatn

8 msk. rjómi

1 msk. vanillusykur

100 g dökkt súkkulaði

400 g smjör

Setjið eggjarauður, vatn, rjóma og vanillu í pott og hitið. Hrærið vel í.

Takið af þegar hræran er farin að þykkna og komin að suðu.

Bætið súkkulaði saman við.

Hrærið í og látið kólna.

Þeytið smjörið í hrærivél og bætið súkkulaðiblöndunni saman við.

Tertan sett saman

Skerið tertubotninn í tvennt, opnið og dreifið 2-3 dl af apríkósusultu (jarðarberjasultu eða ferskjusultu) á báða hlutana.

Látið annan botninn á tertu­disk með sultuna upp.

Setjið þunnt lag af kremi yfir. Leggið heslihnetumarengsinn yfir.

Aftur þunnt lag af kremi. Loks seinni botninn (sultuna niður).

Smyrjið restinni af kreminu yfir tertuna og á hliðarnar.

Kænugarðsterta fallega skreytt með gulum og bláum lit.
Mynd/Aðsend

Borst-súpa

500 g svínarif

1 kg tómatar, saxaðir smátt

2 b hvítkál

3-4 rauðrófur

1 búnt steinselja, söxuð

2-3 gulrætur

6 meðalstórar kartöflur

1 rauð paprika

2 laukar

1 hvítlaukur

1 dl saxaður graslaukur

Olía

Safi úr tveimur sítrónum

Setjið kjötið í pott og tvo lítra af vatni yfir. Sjóðið í 2 klst. Veiðið skánina ofan af.

Veiðið kjötið upp úr pottinum og setjið á disk.

Flysjið kartöflurnar, skerið í litla bita og setjið ofan í pottinn.

Flysjið rauðrófur, skerið í litla bita og steikið í 2 msk. af olíu á pönnu. Þegar þær eru steiktar hellið yfir sítrónusafa.

Skerið lauk og bætið við á pönnuna. Þá steinselju, gulrætur og papriku og bætið saman við.

Skerið kál og setjið það í vatnið, látið sjóða í 20 mín.

Bætið loks við grænmetinu af pönnunni og látið sjóða í 10 mín.

Bætið tómötum við súpuna.

Bætið við salti, 3-4 tsk. af sykri, hvítlauk og graslauk.

Bætið kjötinu saman við súpuna. Látið suðuna koma upp, slökkvið undir og látið standa í 15-20 mín. áður en hún er borin á borð.

Berið fram með sýrðum rjóma og steinselju.

Borst-súpa borin fram með sýrðum rjóma og steinselju.
Mynd/Aðsend