Með hækkandi sól fylgja ýmis veisluhöld, fermingarveislur, útskriftaveislur og brúðkaup svo dæmi séu tekin. Til að fá góð ráð og frumlegar hugmyndir fyrir veisluhöldin fékk Sjöfn Þórðar í þættinum Matur og heimili, Elvu Hrund Ágústsdóttur stílista og Hrafnhildi Þorleifsdóttur blómaskreyti til að dekka hátíðarborð sem er miðpunktur veislunnar hverju sinni.

Tilefnið var að að slá upp fermingarveislu fyrir áhorfendur þáttarins þar sem hugsað var fyrir heildarumgjörð veislunnar með glæsilegri útkomu.

Fallegt veisluborð. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

„Þar sem við erum að detta inn í bjartari tíma með hækkandi sól, kom ekkert annað til greina en að dekka borðið í ljósum litatónum. Það mætti segja að innblásturinn hafi komið með þessum góða vetri, þar sem oftar en ekki var hlýja og fínasta vorveður í lofti – og þá skiptir maður ósjálfrátt um gír. En mér finnst afar mikilvægt að huga vel að borðskreytingum þegar gesti ber að garði. Borðið er oftar en ekki það fyrsta sem fólk tekur eftir þegar það mætir í veisluna, og borðið er einnig staðurinn þar sem gestir sitja hvað lengst fram eftir kvöldi og njóta góðs matar og samveru. Þessi tiltekna uppstilling á borði á vel við fermingar, skírnarveislur, stórafmæli, brúðkaup eða í raun hvaða tilefni sem er. Því uppstillingin er yfirveguð en á sama tíma glæsileg og áberandi,“ segir Elva og finnst fátt skemmtilegra enn að dekka hátíðarborð.

Lifandi og litrík blóm og fallegar blöðrur setja skemmtilegan og fagran svip á veisluborðið. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Hugmyndaflugið ræður servíettuhringjunum. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Keramik í jarðlitum og hör tóna vel saman

Þema veislunnar minnir á náttúruna og hefur enga kynjatengingu. Elva hugsaði vel út í samsetninguna og er afar fær að raða saman efniviði og litatónum sem mynda skemmtilega litapallettu.

„Ég valdi hvítan hördúk á borðið og hörservíettur, og ákvað að halda mig við þessa náttúrutengingu með fallegri keramik í jarðlitum. Það eru tvenns konar matarstell á borðinu, annars vegar eitt drapplitað frá Ferm Living og hins vegar steinleirsdiskar frá Jars Céramistes í mjúkum pastellitum, og sýna að það er vel hægt að blanda saman litum án þess að þeir verði of afgerandi. Ég blanda síðan ýmist kristalsglösum við tærari glös og sýni jafnframt hvernig nota má kampavínsglös á fæti undir eftirrétti. Eins nota ég litla keramik kaffibolla undir skyrmús með hnetumulningi. Þar fyrir utan eru litlar skálar með lakkrískúlum á borðinu, á milli allra gesta – svona til að narta í yfir daginn.“

Þetta er ekkert venjulega fallegt veisluborð. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Hér sést önnur smart útgáfa af því hvernig má raða servíettu við diska. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Að útbúa matseðil og söngtexta er tilvalið uppbrot

Elva á það líka til að lauma inn frumlegu skrauti, fylgihlutum og skemmtilegheitum, sem gleður augað og sálina.

„Einhverra hluta vegna vill það til að ég lauma oft einhverju gylltu á borðin sem ég skreyti og í þetta sinn var það engin undantekning. Á borðinu má sjá papparör í glösum með gylltum doppum og eins er statíf undir matseðilinn gyllt á lit. En ég mæli með að útbúa söngtexta, matseðil eða einhvers konar borðkort til að setja smá spennu í mannskapinn, við hverju hann má búast.“

Hvít kerti eru alltaf sparileg en vissulega má nota alla regnbogans liti í kertastjakana. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
Fallegt skraut, en hér er lifandi blóm notað. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Lifandi blóm mynda heildarstemninguna

„Til að binda borðið saman eru lifandi blóm mitt fyrsta val – það verður allt fallegra þegar blóm lenda á borðinu. Við Hrafnhildur hjá Blómagalleríi vinnum ákaflega vel saman og úrvalið hjá henni er ævintýralegt. Þegar ég átti fund með Hrafnhildi fyrir þetta verkefni og sagði henni mínar hugmyndir varðandi uppstillinguna og borðið sjálft, þá vorum við með alveg sömu sýn á það hvernig blómin ættu að raðast, í mörgum misstórum glærum vösum þar sem villtir blómvendir raðast eftir miðju borðsins – og verða í raun upphafið að óskrifuðu ævintýri kvöldsins. Eins lagði ég lítil blóm við diskana og á servíetturnar, sem gerir mikið fyrir heildarútlitið.“