Fermingarbörn eru klár og þau eru að velta fyrir sér ýmsum stórum spurningum. Í borgaralegri fermingarfræðslu er lögð áhersla á að hlusta, taka mark á börnunum og undirbúa þau fyrir lífið.

Áslaug Guðný Unnsteinsdóttir, leiðbeinandi í borgaralegri fermingarfræðslu Siðmenntar, segir að það sem skiptir fermingarbörn mestu máli sé að finna að það sé hlustað á þau. Hún fermdist sjálf hjá Siðmennt og er ekki trúuð en fór í nám í guð- og trúarbragðafræði við Háskóla Íslands því hún hefur alltaf haft mikinn áhuga á trúarbrögðum.

„Ég hef sérstakan áhuga á því hvernig trúarbrögð láta fólk gera bæði góða og slæma hluti í nafni trúarinnar. Mig langaði að skilja fólk betur,“ segir Áslaug.

Hún segir að námið hjálpi henni sem leiðbeinanda.

„Það hjálpar af því að börnin spyrja oft um guð og eru að velta þessu fyrir sér. Þá er skemmtilegt að geta útskýrt hlutina með því að gefa þeim dæmi úr ýmsum trúarbrögðum, ekki bara kristni,“ segir Áslaug.

Áhersla á umræður

Áslaug segir að borgaraleg fermingarfræðsla gangi út á að kenna börnunum hluti sem muni nýtast þeim gegnum lífið.

„Þau læra um gagnrýna hugsun og siðfræði og það er verið að kenna þeim eitthvað sem skólakerfið kennir þeim ekki,“ segir hún. „Fræðslan fer þannig fram að það er kynning eða fyrirlestur og svo umræður. Síðan taka við leikir og verkefni sem tengjast námsefninu. Í lok tímans sest ég svo niður með krökkunum og við ræðum daginn og veginn og tökum smá pælingar, bæði út frá námsefninu og ekki. Þetta snýst rosalega mikið um samtal og heimspekilegar umræður um efnið og pælingar og spurningar út frá því.

Fræðslan fer fram á hóteli í Reykjavík en svo eru líka helgarnámskeið í SÍBS-húsinu og um helgar er einnig boðið upp á þessa fræðslu víða á landsbyggðinni,“ segir Áslaug.

Tekið mark á þeim

Áslaug leiðbeinir þremur hópum og í hverjum eru 15-20 krakkar. Hún segir að það sem brennur helst á krökkunum sé að einhver hlusti á þau.

„Mér finnst skólakerfið ekki taka nægilegt tillit til þess hvað þau eru ótrúlega klár og spekúlera mikið í hlutum,“ segir hún. „Í fræðslunni hjá okkur fá þau að hugsa um hluti sem þau hafa ekki fengið að velta fyrir sér áður og það er einhver sem hlustar á spurningar og vangaveltur þeirra með fullum áhuga. Þau eru mjög mikið að velta fyrir sér geðheilbrigðismálum, kynjamisrétti, mannréttindum og öðrum tengdum málefnum. Þau eru líka að velta fyrir sér alls konar stórum spurningum eins og „af hverju trúir fólk á guð?“ og „hvers vegna er sumt fólk með fordóma gagnvart múslímum?“. Þau eru mjög klár.“

Að fræðslunni lokinni tekur svo athöfnin sjálf við.

„Athöfnin er fyrst og fremst viðurkenning á því að hafa sótt námskeiðið og lokið því, að viðkomandi sé búinn að fá næga þekkingu til að vera tilbúin(n) til að fara út í lífið,“ segir Áslaug.

Fræðslan gaf henni mikið

„Það er mikilvægt að bjóða upp á borgaralega fermingu vegna þess að það eru ekki allir trúaðir og það eru ekki allir sem eru trúaðir kristnir,“ segir Áslaug. „Mér finnst líka eins og efnið sem við tökum fyrir vanti í skólakerfið og það er rosa gott að geta boðið upp á góða fræðslu. Kynfræðslan hjá okkur eru til dæmis mjög fín en þau fá ekki nógu góða kynfræðslu í skólanum.“

Sjálf fermdist Áslaug borgaralega árið 2010 af því að hún trúir ekki á guð og segir að fræðslan hafi gefið sér mjög mikið.

„Sérstaklega þetta með gagnrýna hugsun. Í fyrsta sinn var verið að biðja mig um að horfa á eitthvað með gagnrýnum augum og spyrja mig hvað mér fannst,“ segir hún. „Loksins var eins og ég skipti máli og leiðbeinandinn hafði raunverulegan áhuga á því sem ég sagði.“

Hún ákvað svo að gerast leiðbeinandi hjá Siðmennt eftir að hafa heyrt góða hluti frá vinum sem eru leiðbeinendur.

„Þau sögðu að þetta væri yndislegt og ég hef mjög gaman af börnum, sérstaklega á þessum aldri, og mér finnst ekki nógu mikið hlustað á þau,“ segir Áslaug. „Mig langaði að læra af þeim og taka þátt í að móta huga ungs fólks sem er að verða fullorðið.“