María Gomez, sem er annálaður sælkera- og matarbloggari, er einnig mikill fagurkeri og vill hafa fallegt í kringum sig. Um leið hefur hún notagildið í huga. María hefur nokkrum sinnum flutt ásamt fjölskyldu sinni og gert upp húsnæði, og síðast þegar fjölskyldan flutti lagði María mikla áherslu á að gera herbergi barnanna að hlýlegu athvarfi.

„Við hjónin höfum mikinn áhuga á að gera falleg heimili og höfum gert upp þó nokkurt húsnæði. Skemmtilegast er að reyna að gera sem mest fyrir sem minnst og finnum við upp á alls kyns lausnum til að nýta það gamla og gera að nýju, sem dæmi lakka gamlar hurðir og margt fleira,“ segir María sem veit fátt skemmtilegra en að fegra heimili sitt.

Í þessum fallega hönnuðum herbergjum hefur Maríu tekist að skapa fullkomið jafnvægi á milli hagkvæmni og sköpunar og persónuleikar barnanna fá að njóta sín.MYNDIR/MARÍA GOMEZ

Persónuleika barnanna og áhugamálum þeirra mætt

Þegar kom að því að útbúa barnaherbergin fannst Maríu mikilvægt að þau yrðu persónuleg og griðastaður barnanna.

„Börnin voru frekar ósátt við flutninginn á sínum tíma og að þurfa að skipta um skóla, því fannst mér mikilvægt að gera herbergin þeirra að hlýju athvarfi þar sem áhugamálum þeirra væri mætt ásamt því að gera herbergin í takt við þeirra karakter.“ Þegar kom að því að velja liti, hirslur og hluti inn í herbergin hafði María börnin eitthvað með í ráðum.

„Fyrst og fremst reyndi ég að finna hlýja liti sem virka róandi og slakandi á börnin, þau fengu aðeins að vera með í ráðum en Alba valdi sér til að mynda blátt veggfóður sem var líka hægt að fá í bleiku og gulu. Reynir Leo vildi brúnt og Mikael grænt herbergi og því ákvað ég að nýta mér það sem grunnliti í herbergjum þeirra en ég hafði lokavalið sjálf með þeirra skoðun í huga. Hirslur valdi ég út frá geymslugildi en mér finnst gott að hafa mikið af lokuðum skápum og skúffum þar sem hægt er að geyma leikföngin en þau eru samt aðgengileg á auðveldan hátt.“

María notar gjarnan gamla skó af börnunum til skrauts og það kemur vel út.

Táknrænir hlutir fanga augað í herbergjum barnanna

Ertu til í að segja okkur frá herbergjunum þremur, þessum persónuleika barnanna sem fær að njóta sín í herbergi hvers og eins?

„Alba er algjör drottning og heitir drottningarnafninu Viktoría Alba. Því fannst mér vel við hæfi að hafa herbergið hennar smá svona drottningarlegt með 100 ára gömlum fallegum húsgögnum sem ég fann á bland.is og gerði upp. Strákarnir eru báðir miklir veiðimenn og því valdi ég að hafa svolítið veiðiþema hjá þeim báðum.

Inni hjá Mikael er gamall bogi uppi á vegg og gömul veiðihjól notuð til skrauts, í hans herbergi er líka smá indíánaþema með veiðiþemanu en mér fannst hann vera eins og lítill indíáni þegar hann fæddist, svo dökkur og hárprúður.

Rúmið og snyrtiborðið hjá Ölbu er 100 ára og fann María þau á Bland.is og gerði þau upp. Liturinn Misty Olive er líka frá Flügger og er Dekso 1 ultramatt.

Hjá Reyni Leo er veiðikofaþema en uppáhaldsþættirnir hans eru Veiðikofinn þaðan sem ég fékk hugmyndina að hans herbergi, með gamalli veiðistöng uppi á vegg, gömlum veiðihjólum og gömlum sjónauka frá afa gamla. Hans herbergi er svona bland af skot- og stangaveiði.“

Bogann í græna herbergi Mikaels átti pabbi hans sem strákur og flutti með sér frá Ameríku úr einu fríinu. Græni liturinn er Relaxed green frá Flügger.Serbl_Myndatexti:MYNDIR/MARÍA GOMEZ
Sjóræningjaskip í herbergi Reynis Leos er næstum 100 ára, frá langafa hans, einnig hnýtti hann flugurnar sem María setti í ramma. Skemmtilegt skraut hjá stráknum.
Maríu fannst mikilvægt að gera herbergin hlýleg og gott athvarf.
Alls kyns skemmtilegir hlutir setja svip á umhverfið í herbergjum barnanna. Litir eru notalegir.
Öll veiðihjól í herbergjum strákanna eru gömul veiðihjól í eigu pabba þeirra og afa. Gamli sjónaukinn hjá Reyni Leo er frá pabba hans og eins er hann með gamla veiðistöng frá langafa hans. Litur er Terracotta frá Flügger.