„Ég er alinn upp við að fara í aftansöng á aðfangadagskvöld og finnst það ómissandi jólahefð. Það bæði lengir aðfangadagskvöldið sem allir hafa beðið eftir í heilt ár, er ákaflega hátíðlegt og skapar réttu stemninguna fyrir jólin,“ segir Gosi Ragnarsson, fjögurra barna fjölskyldufaðir.

Gosi hét áður Gunnar Björgvin en fékk því breytt í sumar.

„Mamma og pabbi hafa alltaf kallað mig Gosa og vildu ekki að ég yrði kallaður Gunni. Því var eðlilegt framhald að breyta nafninu í Gosa því ég vissi að ef einhver hringdi og bæði um Gunna væri það einhver sem þekkti mig ekki, jafnvel lögga eða lögfræðingur. Það er svo alls ekki fyrir hvern sem er að bera Gosa-nafnið en það á vel við mig; ég er glaður og hress,“ segir Gosi kátur.

Heima varð allt vitlaust

Gosi er svokallaður einnar-messumaður, samkvæmt pétrísk-íslenskri orðabók séra Péturs Þorsteinssonar í Óháða söfnuðinum, en það á við um þá sem mæta í kirkju einu sinni á ári, sem er á jólunum.

„Séra Pétur var fararstjóri minn í sumarbúðum á Ítalíu á fermingarárinu og þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn árið 2002 vildi ég endilega að Pétur skírði dóttur mína. Ég hafði vanist því að fara í jólamessu með foreldrum mínum í Fríkirkjuna eða Grafarvogskirkju en ákvað eftir skírnina að eltast meira við Pétur og hef nú farið til hans í messu á aðfangadagskvöld í tuttugu ár. Ég er meira að segja búinn að draga foreldra mína og bróður með, en það skrifast á persónutöfra séra Péturs og það hversu hátíðlegar og skemmtilegar messurnar hans eru,“ greinir Gosi frá.

Það var svo ein jólin að veðurspáin var afleit á aðfangadagskvöld og Gosi impraði á því við fjölskylduna hvort þau ættu ekki að sleppa aftansöngnum það árið og hugsa bara um steikina heima í staðinn.

„Og það varð bókstaflega allt vitlaust heima. Krakkarnir mínir tóku ekki í mál að sleppa messunni og það kom mér gríðarlega á óvart hversu illa þessi hugmynd fór í mannskapinn. Börnin líktu henni við að sleppa sjálfum jólunum, sem mér fannst í senn skemmtilegt og fallegt, því það sýnir hversu hefðirnar eru sterkar og venjan hjá okkur mannfólkinu. Það gladdi mig að ég væri alls ekki að pína krakkana með því að fara með þá í kirkju, heldur biðu þau þess í ofvæni og ekki síður en eftir jólunum, enda alin upp við aftansönginn frá barnæsku. Það þurfti því ekkert að pæla meira í því og ekki annað til umræðu en að drífa sig í aftansönginn því þegar klukkurnar klingja í kirkjunni klukkan sex koma jólin í hjörtu okkar,“ segir Gosi.

Gosi er svokallaður einnar-messumaður samkvæmt skilgreingingu pétrísk-íslenskrar orðabókar séra Péturs Þorsteinssonar í Óháða söfnuðinum, en það á við um þá sem mæta einu sinni á ári í messu, sem er á jólunum. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON BRINK

Upphafsmaður ljótra jólapeysa

Í pétrísk-íslenskri orðabók séra Péturs er önnur skilgreining sem passar vel við Gosa, en það er JJ kristindómurinn, þegar menn mæta bara til kirkju á jólum og í jarðarfarir.

„Pétur er litríkur persónuleiki, hugmyndaríkur og skemmtilegur. Yngsta dóttir mín fermist hjá honum í vor og sonur minn bíður spenntur eftir því að fermast hjá Pétri eftir tvö ár. Dóttirin sækir nú messurnar sem eru alltaf með skemmtilegu tvisti, allt frá galdramessum, hundamessum, Bítlamessum og fleiru,“ segir Gosi.

Þann 20. desember fagnar fjölskyldan líka því að liðin eru tuttugu ár síðan séra Pétur skírði elstu dótturina.

„Það var sama dag og ég útskrifaðist sem hárgreiðslumaður úr Iðnskólanum. Ég hætti reyndar í hárbransanum 2016 en desember var alltaf mjög annasamur þegar allir fóru í jólaklippinguna og þá var gott að geta slappað af í messu hjá Pétri á aðfangadagskvöld,“ segir Gosi.

Í dag starfar hann við ferðaþjónustu hjá Superjeep sem fer með fáa ferðamenn í einu í ferðir á upphækkuðum og sérútbúnum jeppum.

„Nú er desember líka orðinn háannatími í ferðabransanum með tilheyrandi norðurljósa- og dagsferðum um landið. Ég verð þess áskynja að ferðafólkinu þyki mikið til íslenskrar aðventu og jóla koma enda algjört ævintýri að sjá sveitabæina í bjarma jólaljósa og upplýsta, litríka krossa í kirkjugarðinum við Kotstrandarkirkju. Það skapar jólastemningu og stundum fer ég aukahring um bæinn til að sýna mest skreyttu jólahúsin. Ég hef hins vegar ekki enn farið með ferðafólkið í jólamessu til Péturs, en hver veit nema ég geri það. Því þætti gaman að hitta prestinn,“ segir Gosi, sem gefur ferðafólkinu að smakka hefðbundinn jólamat, eins og hangikjöt, en það fúlsar víst við lunda, hval og hrossakjöti.

„Svo held ég því fram að ég hafi komið með ljótu jólapeysuæðið til Íslands. Ég fór í Mall of America 2004 og fann þar „second hand“-markað þar sem ég keypti mér nokkrar ljótar jólapeysur. Þá hafði ég ekki séð neinn í slíkri peysu hér heima en í dag hef ég gaman af því að sjá fólk klæðast ljótum jólapeysum í stórum stíl,“ segir Gosi og er kominn í jólaskap.

„Það er líka hluti af því að klæða sig upp fyrir jólin að fara út og til kirkju í stað þess að setjast bara til borðs heima. Að fólk sjái mann í sparigallanum. Ég mæli því eindregið með því að allir fari í kirkju á jólunum, því það eru jólin.“