„Ég á margar fallegar minningar um skart. Ég elskaði auðvitað að gramsa í skartgripaskríninu hjá mömmu þegar ég var lítil og fannst ég vera ógurleg pæja þegar ég fékk að fara í Úlfarsfell og kaupa límmiða-eyrnalokka á spjaldi, en svo vandaðist valið hvort það yrðu fjólublá hjörtu eða gulu tunglin þann daginn,“ segir skartgripahönnuðurinn Erla Dóra Gísladóttir, um sín fyrstu kynni af skartgripum.

Hún er borgarbarn í húð og hár, en elskar samt að fara niður í fjöru og skottast um berfætt í sandinum.

„Náttúran er minn innblástur númer eitt, því hún er endalaus uppspretta af viðfangsefnum og skemmtilegum áferðum,“ svarar Erla Dóra, innt eftir yrkisefni sínu við skartgripahönnun. „Undanfarin misseri hef ég þó unnið meira með alls konar minningar og tilfinningar sem þær kalla fram.“

Sleikjó-hálsmen úr Blandi í poka, frísklegri nostalgíu-línu Erlu Dóru. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Fyndið, einstakt og einlægt skart

Erla Dóra hefur alla tíð verið skapandi og segir rifjast upp æ betur hversu ung hún fór að gera skartgripi.

„En ég áttaði mig ekki á því fyrr en seint og síðar meir að skartgripahönnun væri alvöru möguleiki þegar kæmi að atvinnu, því allt svona kreatíft vill oft verða stimplað sem hobbí. En þegar hausinn var kominn á sama stað og hjartað var ekkert annað sem kom til greina þegar kom að námi og ævistarfi.“

Erla Dóra segir skartið sem hún skapar vera svolítið öðruvísi og vonar að svo verði alltaf.

„Það er einstakt og einlægt, en líka svolítið fyndið og skemmtilegt. Skartgripir finnst mér eiga að vera eins og lítil listaverk. Þeir kalla fram tilfinningar og fela í sér einhverja sögu sem fær svo að bæta við nýjum kafla. Þeir þurfa samt ekki alltaf að taka sig of alvarlega,“ segir hún glettin.

Stíll Erlu Dóru er í senn fjölbreyttur en sérstakur.

„Þannig geta allir vonandi fundið sig í einhverju sem ég geri. Skel er ekki bara skel og sleikjó ekki bara sleikjó; skart er það sem þú tengir það við. Hvunndagsskart er kannski ekki tignarlegur titill en ég get ekki hugsað mér betri viðurkenningu en að sjá fólk bera mína sköpun alla daga, alltaf.“

Gullfallegt hálsmen með skeljum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Fögur form náttúrunnar verða Erlu Dóru iðulega að yrkisefni, svo sem skeljar og kuðungar. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Punkturinn yfir i-ið

Skart er alltaf í tísku, nú sem endranær, segir Erla Dóra.

„Skart er punkturinn yfir i-ið. Undanfarið hefur verið mikil 90’s-stemning, sem er frábært. Ég frumsýndi einmitt bland í poka-línuna mína fyrir tæpu ári, til að spila svolítið inn á þessa 90’s-þrá, að fara í sjoppuna með 50-kall og fá risastóran grænan bland í poka og þá einskæru gleði sem nammi getur verið. Mig langaði að skapa skemmtilega og einlæga línu þegar heimurinn var síður á upplífgandi stað.“

Hún hefur gaman af því að sjá út íslenska hönnun, misvel þekkta, í útliti annarra.

„Það er bara svo gaman að sjá fólk með skart sem passar einhvern veginn fullkomlega við persónuleika þess. Svo er náttúrlega langskemmtilegast þegar ég sé óvænt grip eftir mig,“ segir Erla Dóra kát.

Dýrindis hringar með eðalsteinum. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Glaðlegur lakkríshringur úr silfri. MYND/AÐSEND

Hún vill að fólki líði fyrst og fremst vel með skart eftir sig.

„Ég vil að skartgripur verði náttúruleg framlenging af þeim sem ber hann. Það er sannarlega frábært þegar sá sem ber skart kann að meta hugsun hönnuðarins, en það er langbest þegar viðkomandi tengir strax sínar eigin tilfinningar við gripina, sem eru kannski allt aðrar en mínar.“

Sjálf á Erla Dóra nokkra skartgripi sem eru henni hjartfólgnir og hún notar spari.

„Það eru eldgamlir erfðagripir sem hafa lifað mun lengur en fólkið sem bæði bjó þá til og átti þá fyrst. Það vona ég að mitt skart fái líka að gera; að lifa og skapa minningar með mörgum kynslóðum. Stoltust er ég þó af börnunum mínum. Þau eru það fegursta sem ég hef skapað. Skartgripirnir mínir eru líka svolítið eins og börnin mín og ég er fáránlega stolt af því hversu vel þeir eru að pluma sig í heiminum.“

Hægt er að skoða skartgripina hennar Erlu Dóru á Instagram @eddodesign og á eddodesign.com