Helga Helgadóttir, deildarstjóri stoðþjónustu í Fossvogsskóla, hefur fengið leyfi frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til að koma með hundinn Trausta í skólann. Nú geta börn komið og lesið fyrir hann, spjallað eða einfaldlega átt notalega stund. Trausti kemur tvisvar sinnum í viku, á miðvikudögum og föstudögum, og er yfirleitt biðröð af börnum til að líta inn til Helgu og Trausta, sem er sérþjálfaður skólahundur.

„Ég og Gunnar Jarl, maðurinn minn, fengum styrk bæði frá félagsmála- og menntamálaráðuneytinu, til að kaupa Trausta, sem þá var hvolpur. Hann er hreinræktaður Golden Retriever og er sérþjálfaður skólahundur,“ segir Helga. Hún var með annan hund í verkefni í Vogaskóla og eftir að hafa fengið öll tilskilin leyfi hefur Trausti komið í Fossvogsskóla og glatt þar börnin. „Við erum himinlifandi að hafa Trausta í vinnu og hann er að gera kraftaverk fyrir börnin okkar,“ segir Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir skólastjóri en Trausti fær gæða pepperóní að launum.

Helga segir að börnin hafi tekið Trausta vel og séu yfirleitt mjög spennt yfir dögunum sem hann birtist, en hann er staðsettur í námsverinu í skólanum þar sem krakkarnir koma og læra í rólegheitum. „Það að vera í samvistum við hann hefur reynst mjög jákvætt fyrir nemendur.

Sumir eru að koma gagngert til að lesa fyrir hann eða spjalla um daginn og veginn. Stundum þarf að ræða alls konar hluti og þá er gott að ræða það við hann. Trausti hefur róandi áhrif,“ segir Helga.

Þetta verkefni heitir Hundur í skóla – aukin vellíðan, sem er eitthvað sem hún finnur vel fyrir.

„Það er auðveldara að nálgast nemendur með því að tala um hund. Það er frábær ísbrjótur. Af ýmsum toga er þetta mjög gagnlegt,“ segir hún og bætir við að svona úrræði ætti að vera í fleiri skólum.

„Krakkar tengja við dýr. Börn hafa langflest áhuga á dýrum og svo er mikið hægt að vinna með dýr. Þau hafa til dæmis ekki málið og nota annars konar tjáskipti til að tjá líðan og tilfinningar sem við lesum í. Börn eiga það sameiginlegt með dýrunum að eiga stundum í erfiðleikum með að tjá sig.

Mér finnst stundum eins og ég sé starfsmaður með ofurkrafta þegar ég er með hundinn. Þetta er svolítið eins og að vera svindlkall með ofurkrafta úti á fótboltavelli,“ segir hún og hlær.