Skilnaður Kim Kardashian og Kanye West er loksins genginn í gegn og mun Kim fá 200 þúsund Bandaríkjadali, rúmar 28 milljónir króna, á mánuði í meðlag vegna fjögurra barna þeirra.
Page Six greinir frá þessu en Kim og Kanye, sem voru gift í sjö ár, skildu að borði og sæng í febrúar 2021. Saman eiga þau börnin North, 9 ára, Saint, 6 ára, Chicago, 4 ára og Psalm, 3 ára.
Samkvæmt frétt Page Six sömdu þau um sameiginlegt forræði yfir börnunum en Kim mun þó hafa börnin hjá sér töluvert meira, að jafnaði átta daga af hverjum tíu.
Auk þess að greiða 200 þúsund dali í meðlag mun Kanye greiða helming allra útgjalda vegna skólagjalda barnanna og vegna öryggisgæslu þeirra.