Eitt frægasta málverk sögunnar er af síðustu kvöldmáltíðinni sem ítalski endurreisnarmaðurinn Leonardo da Vinci málaði á árunum 1495 til 1498 og þekur heilan vegg í matsal nunnuklausturs í Mílanó, alls 8,8 x 4,6 metrar.

Da Vinci fangaði augnablikið þegar Jesús sagði: „Einn af ykkur mun svíkja mig, einn sem með mér etur“. Á myndinni sjást viðbrögð lærisveinanna við þeim orðum frelsarans. Hver og einn bregst við með ólíkum hætti og sýnir mismikla reiði eða hneykslun. Daginn eftir, á föstudaginn langa, var Jesús krossfestur eftir að Júdas sveik hann fyrir þrjátíu silfurpeninga.

Rauðvín, ósýrt brauð, vínber, döðlur og fiskur hafa mjög mögulega fætt Jesú og lærisveinana í síðustu kvöldmáltíðinni. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Hvað var á borðum?

Með því að rýna í mannkynssöguna geta sérfræðingar skyggnst inn í líf fólks sem lifði á tímum Jesú Krists. Margar kenningar eru uppi um hvað Jesús og lærisveinar hans lögðu sér til munns í síðustu kvöldmáltíð Krists. Ljóst þykir að borðhaldið samanstóð af rauðvíni og þunnu, ósýrðu brauði, en annað er óljósara. Síðasta kvöldmáltíð Jesú var í aðdraganda páskahátíðar gyðinga en þó ekki hluti af hefðbundnum hátíðarhöldum sem haldin voru í heimahúsum gyðinga fyrstu tvær nætur páskahátíðarinnar. Í ritningunni er altarissakramentið samofið síðustu kvöldmáltíðinni, þegar Jesús er sagður hafa rétt lærisveinum sínum ósýrt brauð og rautt vín með þeim orðum að brauðið væri líkami sinn og vínið blóð sitt.

En hvað annað gat verið á boðstólum í síðustu kvöldmáltíðinni? Í fimmtu Mósebók er heimahögum Krists lýst sem „landi sem flýtur í mjólk og hunangi“ og þar liðu menn ekki skort. Uppskeran innihélt meðal annars vínber, fíkjur og granatepli, en ekki er víst hvort sú fæða hafi staðið til boða fersk snemma vors. Við kvöldmáltíðina hafa þó sannlega geta verið þurrkaðar gráfíkjur, hunang og ólífuolía.

Þar sem síðasta kvöldmáltíðin fór fram rétt fyrir páskahátíð gyðinga getur vel verið að Jesús og lærisveinarnir hafi notið þess að gæða sér á páskalegum réttum. Árið 2015 bentu ítalskir fornleifafræðingar á að dæmigerðir Sedar-réttir sjáist í heilagri kvöldmáltíð da Vinci, svo sem pistasíuhnetur með beisku kryddi, charoset-döðlubollur, cholent-baunastappa, sem og ólífur með myntu sem gætu líka hafa verið á borðum.

Benedikt XVI. páfi kunngjörði hins vegar árið 2007 að lamb hefði ekki verið á borðum í síðustu kvöldmáltíð Krists, þar sem hún fór fram skömmu áður en kom til slátrunar lamba við algengar trúarathafnir á páskum gyðinga á tímum Jesú. Því hafi Jesús verið fórnarlambið í þeim skilningi að vera lamb Guðs sem úthellti blóði sínu fyrir mannkynið.

Eftir síðustu endurbætur á málverki Da Vinci, sem tóku 21 ár og lauk á tíunda áratugnum, birtust nýir réttir á langborði Krists. Þar af einn sem þótti ekki passa við tíma hans á jörðinni, en það var áll með appelsínusneiðum, sem var alls ekki algengur réttur á tímum Jesú, en þeim mun algengari á Ítalíu á sextándu öld og fundust á innkaupalista Da Vinci sjálfs, sem hefur varðveist.

Síðasta kvöldmáltíðin er hér komin í COVID-19-búning í Mílanó þar sem Kristur skiptir borðinu í tvennt til að fara eftir settum sóttvarnarreglum og lærisveinarnir eru með grímur til taks. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Heilnæmt fæði Krists

Samkvæmt Biblíunni og fleiri sögulegum heimildum lifði Jesús á fæði sem líkist svokölluðu Miðjarðarhafsmataræði.

Dr. Don Colbert og A.J. Jacobs, höfundur bókarinnar The Year of Living Biblically, hafa báðir lagst yfir Biblíuna til að skoða á hverju Kristur nærði sig. Þar kemur fram að fólk á tímum Jesú Krists lifði mestmegnis á hreinu jurtafæði, linsubaunum, grófu korni, ávöxtum, grænmeti, döðlum, hnetum, súpum og fiski. Allt saman hráefni sem gefur góða og heilnæma saðningu án óhóflegrar fitu eða kólesteróls. Margir borðuðu mat sinn hráan, sem einnig hafði aukna heilsubót í för með sér. Það brennir fleiri hitaeiningum að tyggja hráfæði auk þess sem eldun dregur úr næringargildi sumra fæðutegunda.

Þegar Jesús gekk um jörðina voru heldur engir ísskápar til svo það var erfiðara að borða steikur, en þó er talið líklegt að fólk hafi borða alifuglakjöt og svolítið rautt kjöt. Þeir Jakobs og Colbert ganga því út frá því að líkamar okkar séu skapaðir til að borða að mestu jurtafæði, svipað og Jesús gerði.

Hvað segja vísindin við því?

Í grein á doctoroz.com er því svarað að í munni manna séu fjórar augntennur, átta framtennur og margir jaxlar. Augntennur eru hannaðar til að rífa í sig kjöt og svipa til tanna kjötæta eins og úlfa, hákarla og krókódíla. Framtennur eru til að narta í ávexti og grænmeti, en jaxlar notaðir til að merja jurtir og fræ. Því telur dr. Colbert að mannslíkaminn sé skapaður fyrir jurtafæði að mestu, þar sem kjötætur hafa mun fleiri augntennur og kjálka til að bíta stóra bita af kjöti. Þá er munnvatn mannsins basískt og fullt af ensímum, þar á meðal mjölvakljúfum (e. amalyse) til að melta plöntur og kolvetni, en í kjötætum er munnvatn súrara og án mjölvakljúfa.

Sé horft til lengdar iðra mannsins samanborið við kjötætur gefur dr. Colbert sér að menn séu skapaðir til að borða jurtafæði, því iður okkar eru fjórum sinnum lengri en hæð okkar.

Í kjötætum eru iðrin aðeins tvisvar sinnum lengri, sem gefur kjöti greiðari leið í gegnum meltingarfærin áður en það fer að rotna. Lengra meltingarkerfi mannsins gefur því lengri tíma til að melta flókin kolvetni, en á sama tíma skapar það meiri hættu á hægðatregðu og þembu, þegar við borðum trefjasnautt, rautt kjöt. Í Biblíunni er hins vegar lítið sem ekkert skrifað um harðlífi, enda snæddi Jesús og samferðafólk hans lítið af kjöti en mestmegnis jurtafæði og fisk.

Írski listamaðurinn John Byrn málaði þessa Covid-útgáfu af Síðustu kvöldmáltíðinni á vegg í Dyflinni, þar sem sumir lærisveinanna eru með grímur við borðhaldið. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Hollt að hætti Jesú

Þeir A.J. Jacobs og dr. Colbert komu eitt sinn til hins fræga læknis dr. Oz sem margir muna eftir úr þáttum Opruh Winfrey. Þar gáfu þeir fáein ráð til að tileinka sér hollar matarvenjur Krists.

Jesús borðaði morgunmat sinn snemma til að hafa orku fyrir dagsverkin. Því er gott að brjóta föstu tólf tímum eftir síðustu máltíð dagsins á undan, þannig að ef kvöldmatur var klukkan sex ætti að borða morgunmat klukkan sex að morgni.

Margir borða hádegismatinn með hraði í dagsins önn, en stærsta máltíð Krists var í hádeginu þar sem hann naut matarins í rólegu andrúmslofti.

Kvöldmat ætti að borða eins snemma og unnt er og léttan málsverð klukkan fjögur síðdegis, því meltingarkerfið á ekki að vera á yfirsnúning á meðan sofið er á nóttunni.

Algengt var að dreypa á rauðvíni með mat á tímum Jesú Krists og oft sagt að rauðvín sé gott fyrir hjartaheilsuna, en þar þarf vitaskuld að gæta hófs eins og frelsarinn gerði.