Ég er alin upp hjá matelskum foreldrum og svo var systir mín lærð smurbrauðsjómfrú og það hafði sennilega sín áhrif,“ svarar smurbrauðsdrottningin Marentza Poulsen um ástæður þess að hún fór meðal annars í læri hjá sjálfri Idu Davidsen, heimsfrægri smurbrauðsdrottningu Dana.

„Það var mikil upplifun fyrir mig að fá að kynnast Idu Davidsen og fá tækifæri til að vinna með henni, en við erum góðar vinkonur í dag,“ segir Marentza. „Ida hefur mikla ástríðu fyrir smurbrauði og þessum gamla og góða mat sem norrænu þjóðirnar hafa lifað á í gegnum tíðina. Ég lærði að bera virðingu fyrir þeirri matargerð og hversu mikið hægt er að gera úr henni og við hana.“

Marentza kenndi smurbrauðsdrottningunni líka eitt og annað.

„Auðvitað lærði Ida ýmislegt af mér og þeim matreiðslumönnum sem við unnum með á árunum sem hún kom til Íslands að vinna við víðfræg jólahlaðborðin á Borginni. Hún kynntist dásamlegu síldinni okkar og hana er að finna á matseðli Idu í dag,“ upplýsir Marentza.

Fólk sækir í stemninguna

Þegar Marentza er innt eftir sinni kærustu minningu af jólahlaðborðum fortíðar, nefnir hún undirbúninginn.

„Það var svo mikil tilhlökkun að undirbúa allan þennan mat og smakka áður en stóri dagurinn rann upp. Svo að kenna fólki að borða mikinn mat án þess að standa á blístri. Það voru líka margir sigrar við það eitt að sjá gesti prófa eitthvað sem þeir héldu að þeir gætu alls ekki borðað, til dæmis síld sem var þá ekki mikið á borðum landans á aðventunni líkt og á hinum Norðurlöndunum, en það hefur breyst.“

Marentza segir smurbrauð sannarlega við hæfi á jólahlaðborðum.

„Siðurinn kemur frá Dönum enda eru þeir þekktastir fyrir sitt „smörrebröd“. Danir eru mjög árstíðabundnir þegar kemur að matargerð. Á þessum árstíma er meira um feitari mat, til dæmis lifrarkæfu, svínakjöt og alls kyns síldarrétti og tíðkast að hópar hittist á aðventunni til að gera sér glaðan dag og njóta þess að borða gott „smörre“ með kældum snafs og bjór. Það er stemningin sem fólk sækist eftir og mér finnst við Íslendingar alveg vera þar, við kunnum að njóta aðventunnar í allri sinni dýrð.“

Í aðdraganda jóla verður Marentza með jólaplatta á Klömbrum á Kjarvalsstöðum en þar er opið alla daga frá klukkan 10 til 17.

„Já, ég verð með jólasmurbrauð, síldarplatta með fimm tegundum af heimagerðum síldarréttum og jólaplatta með heitum og köldum réttum. Einnig jólaglögg og eplaskífur, sem gerist nú varla jólalegra á aðventunni,“ segir Marentza sem einnig rekur Café Flóruna í Grasagarðinum á sumrin.

„Mín uppáhaldsbrauðsneið á aðventunni er með purusteik, heimagerðu rauðkáli og góðri puru. Hún verður auðvitað á boðstólum á Klömbrum,“ segir Marentza og gefur lesendum uppskrift af gómsætu smurbrauði til að njóta í jólaljósum, hlýju og gleði.

Smurbrauð a la Marentza, með roastbeef og heimalögðu kartöflusalati.

Smurbrauð með roastbeef og kartöflusalati

Kartöflusalat:

1 kg kartöflur, soðnar, kældar, skrældar og skornar í teninga

2-3 dl majónes

2 msk. 18% sýrður rjómi

2-3 tsk. sætt franskt sinnep

1 dl graslaukur

2 msk. kapers

Salt og pipar eftir smekk

Haldið kartöflunum til hliðar á meðan öðru hráefni er hrært vel saman og bætið við meira sinnepi, salti og pipar ef vill. Bætið því næst kartöflunum saman við majónesblönduna.

Smurbrauðsgerðin:

Smyrjið rúgbrauðssneið með smjöri. Raðið fallega ofan á hana fjórum sneiðum af roastbeef, en líka má nota skinku og jafnvel hangikjöt. Setjið kartöflusalat ofan á miðju brauðsins og skreytið með steiktum laukhringjum, radísum, sýrðum agúrkum og einhverju grænu, til dæmis karsa, kerfli eða steinselju.