Árni Árnason skrifaði bókina um barnabókaskúrkinn Friðberg forseta með ráðum og dáð dóttur sinnar Helenu, en feðginin þáðu nýlega „fínasta kaffi og góða köku“ hjá hinum raunverulega forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni.

„Þetta var bara frábært og hann tók okkur sem sá sanni höfðingi sem hann er og báðum fannst okkur þetta mikið ævintýri,“ segir Árni. „Það var ofsalega gaman að koma þarna í heimsókn.“

Árni segist aðspurður þó ekki hafa skrifað bókina gagngert til þess að komast í kaffi á Bessastöðum. „Góð spurning en það var nú eiginlega bara bónus sem kom út úr þessu hugsjónastarfi að koma blessaðri bókinni út.“

Feðginin ræddu meðal annars mikilvægi lesturs og bókmennta við forsetann. „Og hann spjallaði dálítið við Helenu um hvað hún væri að gera utan við skólann.“ Og ekki þarf að fjölyrða um hversu mikil upplifun spjallið við forsetann var fyrir Helenu.

„Þú getur rétt ímyndað þér,“ segir pabbinn, greinilega ekki alveg ósnortinn sjálfur. „Hún var náttúrlega bara í skýjunum með þetta. Guðni er bara frábær forseti og við erum heppin að eiga hann,“ segir Árni og bætir við að þeir Friðbergur og Guðni séu eins ólíkir og hugsast getur.

„Þeir eru dálítið eins og svart og hvítt,“ segir rithöfundurinn og án þess að nefna nokkur nöfn eða benda vestur um haf segir hann Friðberg eiga sér fleiri en eina fyrirmynd.