Bandaríska leikkonan og fyrirsætan Tanya Roberts er látin, 65 ára að aldri. Hún lést í gær, að því er fram kemur á vef TMZ.
Þar segir að leikkonan hafi verið úti í göngu með hundana sína þegar hún hafi hnigið niður. Þegar heim var komið leið svo yfir leikkonuna.
Í kjölfarið var Roberts flutt á spítala þar sem hún var sett í öndunarvél. Haft er eftir talsmanni hennar að dánarorsök liggi ekki fyrir en tekið er fram að það hafi ekki verið vegna COVID-19.
Roberts lék í hinum ýmsu kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Þekktust er hún líklegast fyrir hlutverk sitt sem Bond stúlkan Stacey Sutton í A View To Kill þar sem Rooger Moore fór með aðalhlutverkið. Þá lék hún Midge, mömmu aðalpersónunnar Donnu Pinciotti í grínþáttunum That 70's Show.