„Ef ég ætti að henda ráðleggingu í loftið þá er það að taka mataræðið fyrst í gegn áður en hreyfingin er tekin í gegn. Auðvitað er þetta samspil margra þátta en næringarrík fæða með smá hreyfingu skemmir ekkert fyrir,“ segir næringarfræðingurinn, landsliðskonan og nú rithöfundurinn Elísa Viðarsdóttir sem gaf nýverið út bókina Næringin skapar meistarann.

Þar skoðar hún mataræði leikmanna í boltagreinunum þremur, hand-, körfu- og fótbolta, og tekur saman fróðleik um næringu og mataræði. Þetta er jú einnig matreiðslubók og deilir Elísa góðum og einföldum uppskriftum.

Elísa á að baki tæplega 200 leiki með meistaraflokki og yfir 40 leiki með A-landsliði kvenna og veit alveg hvað þarf til að komast á toppinn í íþróttum, því þar skiptir mataræðið öllu máli.

Elísa býður upp á kynningar og örfyrirlestra fyrir hópa og íþróttafélög og mun sinna því næstu mánuði.

„Ég var kannski ekki alltaf hæfileikaríkasti leikmaðurinn og ég fann það fljótt að ég þurfti að leggja áherslu á að vera alltaf í betra formi. Hafa hlutina í lagi sem ég hef stjórn á. Ég hafði stjórn á næringunni og hætti þannig að drekka gos 16 eða 17 ára og hef ekki snert á því síðan,“ segir hún og bætir við að þó hún sé ekki hrifin af öfgum þá hentuðu þessar öfgar henni á þessum tíma.

Fyrir utan uppskriftir og fróðleik er innsýn veitt í matarvenjur tólf landsliðskempna, meðal annars Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, Björgvins Páls Gústavssonar og Martins Hermannssonar. „Þar sést hvað fólk er ólíkt. Það er ekkert eitt sem hentar öllum. Það er gott að hafa næringargrunn til að geta móta sér stefnu í kjölfarið,“ segir Elísa. „Þessir tólf íþróttamenn segja sína sögu tengda næringu og hvað næring hefur spilað stórt hlutverk í þeirra lífi sem íþróttamanna og hvernig þeirra leikdagar líta út,“ bætir hún við.

Tólf íþróttamenn veita innsýn inn í líf sitt á leikdegi og hvað þeir borða. Meðal annars landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir.

Hugmyndin að skrifa bók kviknaði fljótlega eftir að hún var búin að skrifa mastersritgerð sína í næringarfræði. Þar þarfagreindi hún næringarfræðslu til íþróttafélaganna og sá hvað það stórvantaði efni fyrir þjálfara, foreldra og íþróttafólkið sjálft til að fá efni á mannamáli. Efni sem fólk skilur og finnst ekki yfirþyrmandi.

„Markmiðið var því að koma næringarfróðleik og fræðslu til skila á einfaldan hátt. Einnig gef ég ráð um hvernig fólk getur gert einfaldar breytingar á mataræði sínu til að sjá stóraukinn árangur.“

Fiskur í panko raspi

Uppskrift fyrir 1 Hægt að stækka uppskrift að vild með því að margfalda hráefni.

200 g þorskur eða ýsa

½ bolli panko-rasp

2 msk. smjör

1 msk. laukur

½ sítróna

½ bolli rifinn ostur

Salt og pipar

Setjið olíu eða smjör í botn á eldföstu móti. Raðið fisknum ofan á og kreistið sítrónu yfir. Kryddið fiskinn með salt og pipar.

Bræðið smjör í potti og blandið panko raspinu við brædda smjörið. Hellið panko/smjörblöndunni yfir fiskinn.

Skerið niður lauk og stráið yfir panko/smjörblönduna. Sáldrið rifna ostinum yfir allt.

Eldið í ofni við 180°C í 15 mínútur.

Þrátt fyrir að vera markaðssett sem hálfgerð íþróttabók segir Elísa Viðarsdóttir að uppskriftirnar séu fyrir alla með fáum hráefnum.Myndir/Aðesendar