Erla Hlynsdóttir blaðamaður var með ævisögu Guðmundar Felix Grétarssonar í vinnslu í sjö ár. Hún byrjaði á bókinni, 11.000 volt, í ársbyrjun 2014, en hún gat vitaskuld ekki klárað frásögnina fyrr en dramatískum hápunktinum, sögulegri handaágræðslunni, var lokið.

Bið þeirra Erlu og Guðmundar var þó ekki til einskis. Hann hefur tekið nýju lífi tveim höndum og bókinni hefur verið vel tekið og er til dæmis þriðja besta ævisaga ársins, að mati starfsfólks bókaverslana.

Leitin að ævisögunni

„Ég var búin að vinna á fjölmiðlum nokkuð lengi og búin að skrifa þó nokkuð af forsíðuviðtölum og fann að mig langaði að gera eitthvað aðeins stærra og meira og fór að velta fyrir mér hvort það væri ekki bara tilvalið ef ég gæti skrifað ævisögu einhvers,“ segir Erla.

Hún var með þetta bak við eyrað þegar hún rak augun í litla frétt á mbl.is 2013, þar sem Guðmundur Felix greindi frá því að franskt bókaforlag hefði haft samband við hann og að fólk þar vildi endilega gefa út ævisögu hans.

Sterk tenging

„Ég hafði aldrei talað við Guðmund Felix áður en setti mig bara í samband við hann,“ segir Erla, sem bauð sig fram til ævisöguskrifanna. „Honum leist bara ágætlega á þetta þannig að ég fer bara til hans út til Lyon og við hefjum þessa vinnu,“ segir Erla og bætir aðspurð við að þau hafi síðan orðið góðir vinir.

Eftir að frönsku læknunum tókst að græða hendur á Guðmund Felix gat Erla loks klárað að skrifa sögu hans.
Mynd/Aðsend

„Það myndast náttúrlega sterk tenging og hann er náttúrlega að treysta mér í rauninni til að koma í orð afskaplega vandmeðförnum hlutum og viðburðum í lífi hans. Þannig að þetta var bara mjög dýrmætt. Ég er ofboðslega þakklát fyrir að hafa kynnst honum. Hann er auðvitað bara alveg einstakur maður.“

Mikill áhugi í Frakklandi

Sögur útgáfa gefur bókina út á Íslandi, en franska þýðingin kemur út hjá Les Arénes sem flaug Erlu til Frakklands þar sem þau Guðmundur Felix skrifuðu undir útgáfusamning. „Það lá alltaf fyrir að ég myndi klára verkið á íslensku og síðan yrði þetta þýtt, þannig að þeir sáu alltaf fyrir sér samstarf við íslenskt forlag,“ segir Erla og víkur að miklum áhuga Frakka á Guðmundi Felix og nýju höndunum hans.

„Ástæðan fyrir því að franska forlagið hefur þennan áhuga er að Frökkum þótti og þykir mjög merkilegt að franskir læknar séu komnir svona framarlega og hafi gert þessa aðgerð sem Guðmundur fór loksins í núna í ársbyrjun og er einstök á heimsvísu,“ segir Erla og áréttar að jafn flókin aðgerð og handaágræðslan er, hafi aldrei verið gerð áður.

Endurtekin vonbrigði

Erla og Guðmundur ákváðu strax í upphafi að bókin myndi ekki koma út fyrr en aðgerðin væri að baki. „Þá náttúrlega reiknuðu allir með því að hann væri að fara í aðgerð og hann var að flytja út,“ segir Erla um stöðuna þegar hún hóf verkið.

„Við höfðum meira að segja á tímabili áhyggjur af því að við næðum ekki að klára bókina áður en hann færi í aðgerðina. Það voru alveg raunverulegar áhyggjur þarna 2014. En annað kom nú á daginn.“

Erla segir meira skrifræði en nokkurn hafi órað fyrir, óvæntar reglugerðabreytingar og mikill undirbúningur stórs læknateymis hafi átt sinn þátt í töfunum. „Læknarnir voru til dæmis að æfa sig á að gera aðgerð á líkum, þannig að strax þarna var gríðarlegur undirbúningur farinn í gang, en síðan var alltaf eitthvað að koma upp á og ég náði varla að fylgjast með þessu lengur.

Frönsk þýðing bókarinnar verður líklega tilbúin á næsta ári en áhuginn á sögu hans er að vonum mikill í Frakklandi.

Þessi bið var Guðmundi Felix auðvitað afskaplega erfið og oft var þetta þannig að hann átti bara að fá fréttir í næsta mánuði, síðan í næsta og síðan í mánuðinum þar á eftir, þannig að þetta voru svona endurtekin vonbrigði þegar það var alltaf verið að fresta þessu.“

Endasprettur í endurhæfingu

Erla segir bókina því að mestu leyti hafa verið tilbúna fyrir alllöngu síðan, fyrir utan aðgerðarhlutann. „Þannig að þetta er svona búið að fylgja mér í öll þessi ár og ég auðvitað hef sömuleiðis, eins og Guðmundur, verið að bíða eftir aðgerðinni, sem varð sem betur fer að raunveruleika núna.“

Erla byrjaði síðan á lokasprettinum skömmu eftir aðgerðina og lagði sumarfríið sitt undir skriftir og frágang. „Það er í rauninni bara mjög stuttu eftir aðgerðina sem franska forlagið hefur samband við mig og spyr hvort ég sé ekki til í að klára þetta núna.“

Erla minnist þess að eftir aðgerðina hafi hún hikað við að athuga hvort Guðmundur Felix væri tilbúinn til þess að klára bókina. „Eftir aðgerðina vissi ég ekki alveg hver rétti tímapunkturinn væri og hvort við ættum eftir aðgerðina að fara að klára þetta. Vegna þess að hann var náttúrlega að jafna sig og á fullu í endurhæfingu.

En síðan bara kom þessi póstur frá franska forlaginu, þannig að þau voru greinilega alveg að fylgjast með. Og fréttir af aðgerðinni voru náttúrlega mjög fyrirferðarmiklar í Frakklandi,“ segir Erla og bætir við að Guðmundur Felix hafi fengið sendar fréttir úr fjölmiðlum í flestum heimsálfum.“