Sunna Ósk smíðaði stólinn þegar hún var á listnámsbraut í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Síðan þá hefur hún lokið námi í bæði umhverfisskipulagsfræði og iðnhönnun og er nú búsett í Danmörku. Sunna hefur þó reglulega heimsótt bókastólinn sinn og er annt um að hann komist í góðar hendur.

„Ég smíðaði stólinn í skólanum og fór svo beint með hann á einkasýningu mína á HönnunarMars sem var á Borgarbókasafninu. Hann hefur verið í láni þar síðan,“ segir hún.

„Hugmyndin bak við stólinn var bæði sú að endurnýta og halda í það gamla. Þú átt kannski mikið af bókum sem eru farnar að taka pláss en þú ert ekki tilbúin að losa þig við þær.“

Stóllinn er stálgrind sem bókum er raðað á. MYND/BJÖRGVIN SIGURÐARSON

Stóllinn Málfríður er stálgrind sem Sunna raðaði bókum á.

„Það var svolítill hausverkur að setja stólinn saman en það var góð áskorun. Ég kíki reglulega á hann og skoða hvernig bókunum er raðað og dytta að honum. Ég hef talað við þau á bókasafninu og fengið að skipta út bókum ef þau eru með fleiri afskrifaðar bækur. Svona til að fegra hann aðeins,“ segir Sunna og hlær.

„Þau á bókasafninu sögðu mér að stóllinn hefði hjálpað til við að selja afskrifaðar bækur. Mér fannst mjög gaman að heyra það. En núna er verið að endurskipuleggja á bókasafninu og því miður er ekki pláss fyrir hann lengur.“

Bókastóllinn Málfríður óskar núna eftir nýju heimili eftir að hafa verið í átta ár í láni á Borgarbókasafninu í góðu yfirlæti. MYND/BJÖRGVIN SIGURÐARSON

Sunna segist ekki vera með neinn draumastað í huga fyrir stólinn. Hún vill bara að hann verði einhvers staðar þar sem hann er vel metinn.

„Ég hef heyrt í nokkrum bókasöfnum en þar er því miður ekki pláss, en vonandi finnst samastaður fyrir hann,“ segir hún.

Sunna hefur ýmislegt gert síðan hún bjó til bókastólinn góða en þessa dagana er hún að sækja um að vera með innsetningu á arkitektahátíð og hönnunarhátíð.

„Ég er sjálfstætt starfandi, en þessi innsetning er tengd landslagsarkitektúr. Hátíðirnar sem ég er að sækja um á eru í október og verða líklega bæði á netinu og á staðnum. Ég tók þátt síðasta október í hollensku hönnunarvikunni í Eindhoven en hún var bara á netinu. En það verður bara að koma í ljós hvað verður núna.“

Ef einhverjar hugmyndir vakna um tilvalinn stað fyrir stólinn má hafa samband við Sunnu á soskdesign@gmail.com.