Bókasafn Móðurmáls – samtaka um tvítyngi er bókasafn fyrir börn og ungt fólk á erlendum tungumálum. Bækurnar eru skráðar í Gegni en eru geymdar heima hjá félögum í Móðurmáli.

„Bókasafn Móðurmáls á ekki húsnæði. Ég sé um að skrá bækurnar heima hjá mér eftir vinnu á kvöldin og hef nú þegar skráð um 4.000 bækur, geisladiska og mynddiska á þrjátíu og tveimur tungumálum. Ég er samt ekki búin með allan safnkostinn. Sífellt bætast við bækur á nýjum tungumálum, nú síðast á tyrknesku og esperanto. Svo geymum við bækurnar á mismunandi stöðum. Ég er t.d. með uppraðað bókasafn í kjallaranum hjá mér á ítölsku, auk tungumála sem ekki er verið að kenna eins og er,“ segir Rósa Björg Jónsdóttir, verkefnastjóri Bókasafns Móðurmáls. Hún er fagstjóri í skráningu hjá Landsbókasafni Íslands en sinnir starfinu fyrir Móðurmál í sjálfboðavinnu.

„Hver og einn hópstjóri fyrir móðurmálshópana geymir bækur heima hjá sér en draumastaðan væri að fá samastað þar sem fólk gæti komið og skoðað safnkost Móðurmáls. Vonandi munum við einhvern tíma geta boðið upp á fjölmenningarbókasafn. Eins og staðan er núna er einungis hægt að skoða hvaða bækur við eigum á www.leitir.is og þetta virkar þannig að ég fæ fyrirspurnir, t.d. í gegnum tölvupóst, Facebook eða frá hópstjórunum. Ég sé um að koma þeim áleiðis svo bækurnar skili sér á réttan stað og komi að góðum notum. Jafnframt lána hópstjórar út bækur þegar kennsla er á tungumálinu,“ segir Rósa en Móðurmáli berast oft bókagjafir.

Reykjavíkurborg hefur stutt við Bókasafn Móðurmáls varðandi hýsingu en Rósa kallar reglulega til vini og vandamenn til að ganga frá safnkosti eftir skráningu. Þá hafa skiptinemar á vegum Erasmus+ lagt hönd á plóg. Móðurmál hefur verið tilnefnt til Foreldraverðlauna Heimilis og skóla oftar en einu sinni og hlaut verðlaunin árið 2016. Verkefnið Allir með, sem var unnið í samstarfi við SAMFOK, hlaut Hvatningarverðlaun Heimilis og skóla árið 2018.

Rósa segir þessar viðurkenningar mikilvæga hvatningu fyrir starfið. „Við viljum vera sýnileg svo fólk viti af okkur. Í fyrra héldum við, ásamt SAMFOK, tíu foreldrafundi á ýmsum tungumálum í verkefninu Allir með. Þar var kynnt starfsemi sem stendur foreldrum og börnum til boða. Við höfum líka skipulagt árlega ráðstefnu fyrir móðurmálskennara frá árinu 2013, sem hefur mælst vel fyrir,“ segir hún.

Nánari upplýsingar á heimasíðunni www.modurmal.is

Greinin birtist fyrst í sérblaði Heimili og skóla sem fylgdi Fréttablaðinu 13. september 2018.