Reykjavík – Tókýó

Fyrsti áfangastaður var Kaupmannahöfn þar sem Henny gisti eina nótt og svo var haldið til Parísar. Þar áttu allar evrópsku stelpurnar og stúlkan frá Kongó að hittast, áður en haldið skyldi af stað í þessa ævintýralegu langferð. Henny lenti á Charles de Gaulle-flugvellinum ásamt danska keppandanum sem Henny hafði hitt í Kaupmannahöfn. Þaðan héldu þær á stórt hótel rétt við flugvöllinn.

Anddyri hótelsins var troðfullt af fegurðardrottningum. Svakalega flottum skvísum með „make-up box“ á mörgum hæðum.

Mér brá alveg svakalega. Mér brá þegar ég kom á Hótel Loftleiðir, en þetta! Þetta var skelfilegt. Hvert var ég komin?

Til að bæta enn á skelfinguna mætti Ungfrú Frakkland í síðri rúskinnskápu með hatt í stíl.

Það var reim í hattinum og hann hékk um hálsinn á henni, þú veist svona kæruleysislega aftur á bak.

Þetta fór alveg með það! Henny laumaði heklaða pottlokinu sínu ofan í tösku þar sem það fékk að dúsa það sem eftir lifði ferðar. Hvernig hafði henni dottið í hug að hún væri smart og flott? Hún hafði ekkert í þennan samanburð.

Henny flaug af stað frá Frakklandi ásamt 22 öðrum keppendum. Fyrsti viðkomustaður var London þar sem þær fóru í myndatökur. Henny var strax umhugað um að segja mömmu sinni og pabba frá því sem fyrir bar og fyrsta bréf ferðarinnar var skrifað um leið og hún náði í bréfsefni og penna. Hún vissi sem var að breskir blaðaljósmyndarar höfðu myndað þær á flugvellinum og það var ekki alveg útilokað að einhverjar myndir hefðu borist til Íslands.

Já, vel á minnst, getið þið ekki kíkt í ensk blöð sem fást hjá Eymundsson og séð hvort það eru ekki myndir? Það var tekið fullt af myndum af okkur. Annars líður mér vel. Verð að fara að sofa. Búin að vaka í tvo sólarhringa.

       Ykkar Henny

Eftir stutta dvöl í London var ferðinni haldið áfram. Flogið var yfir norðurpólinn til Anchorage í Alaska og því næst var stefnan tekin á Japan.

Henny vissi lítið sem ekkert um Japan þegar hún lenti loks í Tókýó. Hún þekkti heiminn að mestu í gegnum svarthvítt sjónvarp og þó að hún væri búin að spássera um Ráðhústorgið í Kaupmannhöfn og hefði kynnst mannlífinu á Piccadilly í London, var þetta ekki vitund líkt þeim útlöndum. Móttökunefnd tók á móti stúlkunum þegar þær lentu og því næst var ekið af stað í rútu.

Við keyrðum eftir breiðstræti í átt að hótelinu okkar. Ég hafði aldrei séð þvílíka blómadýrð og ég man að ég hugsaði með mér að þetta hlytu að vera plastblóm eða kannski silkiblóm. Þetta var svo óraunverulegt. Allt fólkið sem ég sá var alveg eins í útliti og svo voru það ljósaskiltin. Þau voru stærri, meiri og fleiri en í Kaupmannahöfn og London til samans.

Henny var eitt stórt spurningarmerki og enn ekki komin nema hálfa leið á hótelið. Og ekki minnkaði undrunin þegar þangað kom. Palace-hótelið var hið glæsilegasta og í anddyrinu var gosbrunnur og stór glerveggur þakinn blómum. Henny mátti til með að stoppa. Sá nokkur til hennar? Hún laumaðist til að stinga nefinu í blómahafið. Jú, svei mér þá, þau voru ekta. Jafn lifandi og pelargóníurnar í stofunni heima hjá henni. Kannski var hún dáin og komin til Paradísar. Öryggisverðirnir kipptu henni aftur niður á jörðina þegar þeir kölluðu og vísuðu henni að lyftudyrunum og svo var haldið upp á sjöttu hæð. Greinilegt var að allt skipulag var til sóma og þess vandlega gætt að hver stúlka færi á réttan stað. Þegar upp var komið var ljóst að fulltrúar Íslands, Indlands og Möltu áttu að deila herbergi númer 326 næstu vikurnar.

  Tókýó, 18. mars 1970

Hér er dýrðlegt og mér líður vel. Stelpan frá Indlandi er komin og hún er ofsa sæt og góð stelpa. Við erum allar komnar. Þær eru allar númer eitt í sínu landi eða prófessional módel. Ég er einasta asnalega pían hér. Þær eru svo mikið málaðar og stællinn á þeim ofsalegur.

       Ykkar Henny

Það var vakað yfir hverju skrefi sem stúlkurnar tóku og fyrstu tvo sólarhringana varð Henny æ meira hissa. Allt var framandi og örugglega má gefa þessari upplifun nafnið kúltúrsjokk.

Við vorum allar með aðstoðarkonur sem sáu um að útvega allt sem okkur vanhagaði um. Póstkort, frímerki, bara hvað sem var. Og hvert herbergi hafði sitt teymi. Hárgreiðslumeistara og aðstoðarmann hans og svo konu sem hjálpaði okkur að klæða okkur. Mín var ótrúlega flink að skauta mig, ég var búin að kvíða svolítið fyrir að þurfa að gera það ein. Ég vissi ekki að það væri til svona líf, ég vissi ekki einu sinni að það væri til svona flott hótel.

Miss Young Inter­national-keppnin var haldin í Harumilla-íþróttahöllinni og samhliða henni var stór og viðamikil unglingahátíð. Þar komu fram hljómsveitir og skemmtikraftar og þar voru stórfyrirtæki á borð við Sony og Seiko að kynna nýjasta nýtt, allt það heitasta í græjum og alls kyns dóti fyrir unglinga. Og sumt þótti mjög framúrstefnulegt.

Þarna voru kúluútvörp og ferðasjónvörp og ég veit ekki hvað og hvað. Það var fullt af básum með alls konar vörum, tískufötum auðvitað og plötum, þetta var eins og ævintýraveröld.

Henny og hinar stúlkurnar komu fram tvisvar til þrisvar á dag á hátíðinni. Þær sýndu föt, dönsuðu, sungu og sumar léku á hljóðfæri. Það var í nógu að snúast og smátt og smátt áttaði Henny sig á því að hún var ekki ein um að finnast allt framandi. Flestar stúlkurnar voru að fara einar að heiman í fyrsta sinn og allar að uppgötva heiminn upp á nýtt. Þetta varð til þess að samkenndin jókst og hjálpsemin sömuleiðis.

Henny var í tvær vikur í Tókýó áður en kom að sjálfri keppninni. Hún sendi bréf heim á hverjum degi; hún varð að deila þessu með fjölskyldunni sinni, annars hefði hún líklega sprungið. Hún skrifaði og skrifaði á handgert bréfsefni hótelsins og á sumum þeirra má enn greina tár sem hafa fallið. Hún reyndi að gera sitt besta í framandi veröld en var það nóg?

Já bréfin eru öll til, öll geymd í kassa. Ég er svo hissa á því hvað ég hef verið opinská. Ég sagði þeim allt.

  Tókýó, 23. mars 1970

Viljið þið senda mér myndir af Ævintýri og Trúbrot. Ég á kortin af Ævintýri niðri í herbergi eða takið úr blöðunum. Það trúir því engin hvað það eru lekkerir strákar á Íslandi. Þær heimta myndir.       Ykkar Henny

Og auðvitað sendi Unnur mynd af sætu íslensku strákunum, alla leið til Japans.

Daginn fyrir lokakvöldið lá Henny heima. Hún var því vön að glíma við slæma túrverki en að þessu sinni helltust þeir yfir af margföldum krafti. Hún missti því af æfingunni sem haldin var fyrir lokakvöldið. Hún hafði svo sem ekki miklar áhyggjur af því. Vissi að hún átti að standa á milli Hong Kong og Indlands. Meira þurfti hún ekki að vita. Þessi lokaæfing var mest fyrir þær 15 sem kæmust áfram og svo þær sem yrðu í fimm efstu sætunum. Sem sagt ekkert sem hún þurfti að velta fyrir sér. En hún hafði aðrar áhyggjur.

Ég hringdi heim og pabbi svaraði. Ég sagði honum að ég væri lasin og ítrekaði það sem ég var búin að segja í bréfunum, að ég væri alveg glötuð í samanburði við allar þessar fegurðardrottningar. Pabbi var rólegur og jarðbundinn eins og alltaf. Hann sagðist vera viss um að ég myndi standa mig vel og bara það að fá að fara til Japans væri nægur sigur. Nú skyldi ég vera glöð og þakklát fyrir að vera í landi sem fæstir Íslendingar hefðu tök á að heimsækja. „Vertu bara þú sjálf og þá verður allt í lagi.“

Auðvitað átti hún bara að njóta þess að vera á framandi slóðum og upplifa framandi menningu. Hún hafði engu að tapa og þegar allt kom til alls gat hún ekki verið neitt annað en hún sjálf. Með þetta í huga fór Henny í úrslitakeppnina.