Árni

Geðdeildin var skrítin á marga vegu. Árni fann þar fyrir mikilli andlegri orku ... eða einhverjum krafti sem hann hafði ekki vitað af áður.

Þegar hann vaknaði einn daginn fór hann fram og sá tvo starfsmenn á tali. Það fór vel á með þeim, þeir töluðu um daginn og veginn, um sín persónulegu mál.

Hann horfði á þá heillaður. Hann sá tvo ljósgeisla leika á milli þeirra. Frá öðrum stafaði breiðri bylgju af grænum lit sem beindist að hinum en síðan streymdi bylgja af rauðum lit til baka. Árni stóð og dáðist að þessu litaflóði. Hann vissi ekkert hvað þetta var en það var fallegt. Hann ímyndaði sér að ljósbogarnir væru merki um tengsl, að með bylgjunum færi kærleikur á milli starfsmannanna.

„Vá!“ sagði Árni.

Um leið og hann sagði þetta sneru þeir sér að honum og litabylgjurnar hurfu.

„Hvað?“ spurði annar.

„Ekkert,“ sagði Árni, sem vissi að hann þyrfti ekki að útskýra þetta , hann var nú einu sinni geðveikur.

Daginn eftir lá hann í herberginu og hugmyndir helltust óvænt yfir hann, skyndilega var hann hrifinn inn í sögu heimsins. Úlfar ferðaðist aftur í tíma og virti fyrir sér gengin samfélög, skynjaði samskipti fólks, samskipti kynjanna, trúarbrögð, Jesú, Adam og Evu, og þaðan áfram árþúsundin til þess tíma þegar risaeðlurnar voru uppi. Á hálftíma var eins og hann hefði hlaðið niður nýrri innsýn í liðna tíð svo hann fengi nýja sýn á samtímann. Allt í einu var samtíminn eitthvað svo einfaldur og léttvægur í samhengi heildarinnar. Fastmótaðar hugmyndir fuku úr huga hans.

Árni hafði verið settur í herbergi með öðrum sjúklingi, Karli, sem var guðfræðimenntaður og stefndi á prestinn. Þeim kom vel saman en Árni skynjaði svo þunga orku inni í herberginu að hann gat ekki verið þar.

Það gerðist líka oft að áður en einhver kom í heimsókn til Árna taldi hann sig vita að það væri einhver á leiðinni.

Hann fann fyrir líðan annarra. Það birtist hjá honum í líkamlegum einkennum. Ef einhverjum leið illa, þá leið honum illa. Hann var eins og spegill.

Hann sat oft með fólki sem hann sá að leið ekki vel og náði góðum tengslum við það. Ef einhver var dapur sagði hann brandara eða faðmaði viðkomandi. Þetta tók á en hann leit svo á að svo lengi sem líðanin á deildinni væri góð þá liði honum vel og þess vegna lagði hann sig allan fram.

Fyrir vikið var hann oft dauðþreyttur í dagslok. Oft þegar hann lagðist í rúmið fannst honum eins og þúsund hendur væru að nudda á honum bakið. Upplifunin virtist raunveruleg. Það var eins og einhver væri að þakka honum fyrir dagsverkið.

Árni hafði aldrei velt fyrir sér andlegum málum. Hafði alltaf sagst ætla að trúa þegar hann myndi reyna það sem trúin talaði um. Nú var andlegur veruleiki hins vegar orðinn jafn raunverulegur og allt annað í hinum hefðbundna efnislega heimi.