Bóka­messan í Gauta­borg, sem er stærsti bók­mennta­við­burðurinn á Norður­löndunum, var haldin með glæsi­brag í síðustu viku. Messan laðaði að sér mikinn fjölda gesta sem þyrsti orðið í að heyra og sjá rit­höfunda og kynna sér nýjar bækur en alls heim­sóttu um 90 þúsund manns hana.

Meðal þema há­tíðarinnar í ár voru lofts­lags­mál og flutti að­gerða­sinninn Greta Thun­berg á­vörp og tók þátt í sam­ræðum. Heiður­s­landið að þessu sinni var Suður-Afríka.

„Það var ein­stak­lega á­nægju­legt að fá aftur tæki­færi til að hitta á­huga­sama les­endur ís­lenskra verka í Gauta­borg – og geta kynnt þeim fjöl­breyttar ný­legar þýðingar ís­lenskra bóka á sænsku,“ segir Hrefna Haralds­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Mið­stöðvar ís­lenskra bók­mennta.

Einar Kárason og þýðandinn John Swedenmark ræddu bókina Þung ský sem kom nýlega út á sænsku.
Mynd/Aðsend

Rit­höfundarnir Einar Kára­son og Guð­rún Eva Mínervu­dóttir tóku þátt í ýmsum við­burðum og fjölluðu um bækur sínar, sagna­hefð, Sturlunga­öldina og á­rituðu bækur sínar. Á­samt þeim komu fram Auður Magnús­dóttir, prófessor í sagn­fræði við Gauta­borgar­há­skóla, og sænski þýðandinn John Sweden­mark.

Mið­stöð ís­lenskra bók­mennta hefur tekið þátt í messunni um ára­bil og verið með bás í sam­starfi við Ís­lands­stofu. Á básnum kynntu Hrefna Haralds­dóttir fram­kvæmda­stjóri og Guð­rún Bald­vins­dóttir verk­efna­stjóri gestum ís­lenskar bók­menntir og héldu fundi með út­gef­endum og um­boðs­mönnum. Einnig bauð sendi­herra Ís­lands í Sví­þjóð til mót­töku í básnum.