Hin ósýnilegu

****
Höfundur: Roy Jacobsen
Þýðandi: Jón St. Kristjánsson
Útgefandi: Mál og menning
Blaðsíður: 266

Að draga fram lífið á harðbýlli eyju hljómar kunnuglega fyrir Íslendingum og víst er margt kunnuglegt í sögunni Hin ósýnilegu eftir Roy Jacobsen sem hefur fengið feiknagóðar viðtökur og er meðal annars fyrsta norska bókin sem tilnefnd er til Man­Booker-verðlaunanna.

Sagan gerist einhvern tíma í byrjun tuttugustu aldar og hefst með augum aðkomumanns, prestsins, sem kemur sjóveikur og ringlaður í embættiserindum á Barrey þar sem búa fimm manneskjur, systkinin Barbro og Hans, faðir þeirra, Martin, og eiginkona Hans, María. Og svo Ingrid sem er þriggja ára en sagan fylgir henni fram á fullorðinsár. Við sjáum samfélag þessara fimm einstaklinga fyrst utan frá með augum prestsins en verðum eftir þegar hann fer og kynnumst lífinu í eyjunni hjá þessu fólki sem mann fram af manni hefur barist þar fyrir lífi sínu og sinna, án þess að hafa afgerandi áhrif á heimssöguna sem vekur aftur spurninguna um hvað skiptir máli og hvernig líf er gott líf. Lýst er hversdagslegu brauðstritinu á eynni, sambúðinni við hafið og harðneskjuleg náttúruöflin en höfundurinn greypir þennan kaldranalega hversdagsleika í orð af svo mikilli list að hann verður töfrum slunginn, lýsingar á veiðarfærum, verkum og veðri grípandi og heillandi. Áður en lesandinn veit af er hann sokkinn í faðm Barreyjar, þar sem ytri gerningar veraldarinnar skipta svo litlu máli til móts við hvernig tekst að lifa frá degi til dags og reyna um leið að láta drauma um aðeins betra líf rætast. Það hvernig svo fámennur hópur fólks hefur samskipti, lifir og hrærist, vinnur saman og sundur er listilega vel fram sett og snertir án efa kunnuglegan streng í íslenskum lesendum sem eiga svo margir stutt að rekja ættir til afskekktra heiðarbýla eða smáeyja úti á fjörðum.

Í viðtali við Roy Jacobsen segist hann bera mikla virðingu fyrir stílsnilld Halldórs Laxness og Gunnars Gunnarssonar og það var ekki laust við að bærist bergmál frá þeim í þessari bók. Þýðing Jóns St. Kristjánssonar er einstaklega fallega unnin og lesandinn fær á tilfinninguna að lesið sé á frummálinu, svo fallega skapandi er íslenski textinn. Hin ósýnilegu er mögnuð bók sem hvílir lengi með lesandanum að lestri loknum. Brynhildur Björnsdóttir

Niðurstaða: Óvenjulega fallega skrifuð, áhrifamikil og heillandi bók um sambands manns og náttúru, fólks við hvert annað og staðinn sinn og svo ótal margt fleira.