Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir og Atli Arnarsson framleiða saman stuttmyndir, svokallaðar stillumyndir sem kenndar eru við „stop motion“ og eru vægast sagt tímafrekar í framleiðslu.

Þau hafa hins vegar notið þess að sjá árangur erfiðisins við gerð hinnar þrettán mínútna löngu Eldhús eftir máli á kvikmyndahátíðum víða um lönd en nú síðast vann hún til verðlauna á kvikmyndahátíðinni AnimaFilm í Bakú í Aserb­aísjan.

Verðlaunaeldhús

„Verðlaunin í Aserb­aísjan komu okkur auðvitað á óvart!“ segja þau með nokkrum áhersluþunga. „Þetta er hreyfimyndahátíð sem við höfðum ekki heyrt um áður, en ákváðum að slá til og sækja um,“ segir Sólrún Ylfa og bætir við að þau hafi að vonum orðið mjög spennt þegar þau fréttu að myndin hefði verið samþykkt á hátíðina.

„Og við urðum að sjálfsögðu himinlifandi að heyra að myndin okkar hefði verið valin sem besta stuttmyndin í alþjóðlegum flokki,“ bætir Atli við. „Þetta er mikill heiður og gaman að vita af verkefninu á svona fjarlægum slóðum og skemmtilegt að fylgjast með myndinni lifna við í nýju umhverfi.“

Eldhús eftir máli var frumsýnd á RIFF-hátíðinni í fyrra og áður en parið fékk þessa rós frá Aserb­aísjan í hnappagatið hafði Eldhús eftir máli borið sigur úr býtum í stuttmyndakeppninni Shortfish, eða Sprettfiskur, sem var hluti kvikmyndahátíðarinnar Stockfish í Bíó Paradís.

Auk hátíðarinnar í Bakú hefur myndin verið sýnd á kvikmyndahátíðum í Lapua í Finnlandi, Lissabon í Portúgal og fram undan eru sýningar á hátíðum í Oulu í Finnlandi, Kaupmannahöfn og Naples í Flórída. Þá hefur hún verið tekin inn á væntanlega kvikmyndahátíð í Armeníu.

Myndmál Svövu heillaði

„Við kynntumst sögunum hennar Svövu Jakobsdóttur fyrst lítillega í menntaskóla en þær vöktu í raun ekki athygli okkar almennilega fyrr en systir Sólrúnar skrifaði bakka­lárritgerð um verk Svövu í bókmenntafræði við Háskóla Íslands vorið 2017,“ segir Atli og bætir við að þá hafi þau lesið smásagnasafnið Veizla undir grjótvegg.

„Okkur fannst sögurnar henta mjög vel til stillumyndagerðar vegna þess hve súrrealískar og myndrænar þær eru.“Þau segja hugmyndavinnuna við Eldhús eftir máli hafa byrjað fyrir alvöru um jólin 2018.

„Þá hófumst við handa við að kafa ofan í söguna og búa til handrit,“ segir Sólrún en myndin átti upphaflega að vera sumarverkefni parsins. Vinnan vatt síðan hratt upp á sig og tók á annað ár. Enda þurfti að taka um tíu þúsund ljósmyndir fyrir þær þrettán mínútur sem myndin leggur sig á.

Þar fyrir utan þurfti að smíða leikmynd og gera brúður í nokkrum stærðum enda sameinar stillumyndagerð leikmuna- og leikmynda­gerð, brúðugerð, ljósmyndun, hljóð og fleira.

Tvær grímur

„Þegar langt var liðið á sumarið og verkefnið aðeins hálfnað runnu á okkur tvær grímur. Um haustið fluttum við svo til Kaupmannahafnar í nám, og héldum því ekki áfram með verkefnið fyrr en vorið 2020,“ segir Atli.

„Eldhús eftir máli er eitt umfangsmesta verkefni sem við höfum tekið okkur fyrir hendur og við lögðum mikinn metnað í alla umgjörð; hljóð og tónlist, leikmynd, brúður, myndatöku og ekki síst hreyfitæknina.“

Þegar myndin komst svo inn á RIFF í september 2020 segja þau að ekki hafi annað komið til greina en að setja alla sína orku í að klára hana.

Bogi ljáði sjálfum sér rödd

„Okkur langaði að leggja metnað í að vera með vandaða talsetningu og flottar raddir í myndinni. Við ákváðum einfaldlega bara að prófa að hafa samband við þau sem okkur datt í hug að gætu passað vel í hlutverkin,“ segir Sólrún og bætir við að þeim hafi hvarvetna verið vel tekið enda einvala lið sem talar fyrir persónur myndarinnar.

Björn Thors talar fyrir aðalpersónuna, Ingólf, og Dominique Gyða Sigrúnardóttir fyrir konu hans. Þá hljóma kunnuglegar raddir til dæmis Arnars Jónssonar og Boga Ágústssonar í myndinni.

„Sum þeirra þekktum við aðeins fyrir en við vorum svo lánsöm að þau tóku öll vel í hugmyndina og við erum mjög þakklát fyrir þeirra góða framlag. Við vorum meira að segja svo heppin að fá leyfi Boga Ágústssonar til að gera brúðuútgáfu af honum sjálfum,“ segir Atli. „Og að sjálfsögðu ljáði hann sjálfum sér rödd með glæsibrag!“