Vissir þú …

- Að hjartastopp utan spítala er þriðja algengasta dánarorsökin í hinum vestræna heimi, á eftir krabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum?

- Að 7 af hverjum 10 þessara hjartastoppa eiga sér stað í heimahúsi og í 74% tilvika eru vitni til staðar. Þar af eru rúmlega 60% þeirra nátengd viðkomandi.

- Að það tekur sjúkrabíl 5-10 mínútur að koma á vettvang á höfuðborgarsvæðinu, en það getur hins vegar tekið aðeins 3-5 mínútur fyrir heilann að verða fyrir óafturkræfum skaða af súrefnisskorti.

Í ljósi þess er það sorgleg staðreynd að innan við helmingur viðstaddra, í hinum vestræna heimi, reynir endurlífgun. Í Þýskalandi sjáum við tölur í kringum 11%, um 22% í Bandaríkjunum en hér á Íslandi talsvert hærri eða í kringum 45%, sem samt sem áður er innan við helmingur viðstaddra! Hin 55 prósentin treysta sér ekki til þess. Bera t.d. fyrir sig kunnáttuleysi eða ótta við að gera eitthvað rangt. Það eina sem mögulega er hægt að gera rangt í stöðu sem þessari, er þó einmitt að gera ekki neitt.

Þegar horft er til þess hve fáir treysta sér til þess að hefja hjartahnoð þá kemur það e.t.v. ekki á óvart að líkurnar á að lifa af hjartastopp utan spítala eru afskaplega litlar. Hér á höfuðborgarsvæðinu hafa þær verið í kringum 22%, aðeins 7% á landsbyggðinni utan þéttbýlis en að meðaltali um 10% í hinum vestræna heimi. Það eru því ansi mörg líf sem hægt er að bjarga, nánast með höndunum einum saman.

Árið 2015 réðst Endurlífgunarráð Evrópu (ERC), með stuðningi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), í átak nefnt Kids save lives, í þeim tilgangi að hvetja allar þjóðir heims til þess að innleiða markvissa endurlífgunarkennslu meðal grunnskólabarna. Það kom nefnilega í ljós að þær þjóðir sem höfðu tekið upp slíka kennslu höfðu á skömmum tíma náð að þrefalda þátttöku vitna í endurlífgun og tvöfalda lifun eftir hjartastopp utan spítala, sem áður hafði gengið fremur hægt að bæta. Ráðið lagði fram aðgerðaáætlun þar sem mælst var til þess að öll börn 12 ára og eldri fengju kennslu í endurlífgun, með áherslu á hjartahnoð, og síðan árlega út grunnskólagönguna. Ávinningur þess er talinn gríðarlegur, svo sem aukin öryggiskennd og samfélagsleg ábyrgð. Þá er slík kennsla talin draga úr samviskubiti meðal þátttakenda í árangurslausri endurlífgun og vera þjóðhagslega hagkvæm til lengri tíma litið.

Árið 2018 ákvað Þróunarmiðstöð heilsugæslu á landsvísu að innleiða sambærilegt verklag hérlendis undir íslenska heitinu Börnin bjarga. Framvegis mun kennsla í endurlífgun því verða hluti af skyldufræðslu skólahjúkrunarfræðinga um allt land. Kennsluefni hefur nú þegar verið útbúið og fjármögnun verkefnisins langt komin. Til stendur að veita öllum nemendum frá 6. til 10. bekkjar árlega þjálfun og kennslu í endurlífgun, með áherslu á hjartahnoð. Mikil vinna hefur verið lögð í innleiðinguna og samráð haft við ýmsa aðila á borð við Rauða kross Íslands, Endurlífgunarráð Íslands og Neyðarlínuna, sem ásamt Thorvaldsensfélaginu styrktu einnig verkefnið svo hægt væri að fjárfesta í æfingadúkkum og kann Þróunarstofa íslenskrar heilsugæslu þeim öllum þakkir fyrir.

Þetta er vissulega stórt skref og metnaðarfullt verkefni, en tilhugsunin um að einhvern tíma verði allir Íslendingar, 12 ára og eldri, búnir að fá kennslu í endurlífgun er býsna góð – og rúmlega það.

Höfundur greinar er Ilmur Dögg Níelsdóttir, skólahjúkrunarfræðingur við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Innleiðing verkefnisins Börnin bjarga var hluti af sérnámi hennar í heilsugæsluhjúkrun.