Ein af barnabókum þessa jólabókaflóðs er hin gullfallega og skemmtilega Bangsi litli í skóginum eftir hinn franska Benjamin Chaud, en hann er bæði höfundur sögunnar og myndskreytir. Þetta er önnur bókin um bangsa litla sem kemur út á Íslandi en sú fyrri er Bangsi litli í sumarsól. Chaud er víðfrægur teiknari sem hefur hlotið ýmis verðlaun á ferlinum.

Chaud var staddur hér á landi á dögunum og honum var ómögulegt að svara fyrstu spurningu blaðamanns sem var sú hversu margar bækur hann hefði myndskreytt á löngum ferli. „Ég hef ekki hugmynd um það. Ég hef starfað við myndskreytingar í rúm tuttugu ár og hef yfirleitt myndskreytt fjórar til fimm bækur ár ári. Ég myndi giska á að þetta væru um áttatíu bækur, en það er ekki nákvæm tala. Auk þess að myndskreyta bækur annarra hef ég sjálfur skrifað tíu bækur sem ég hef líka myndskreytt.“

Dýr eru mjög áberandi í bókum Chaud og oft í hlutverki aðalpersóna en ekki ætíð. „Fyrsta bókin mín fjallaði um dreng sem vildi verða fullorðinn og ákvað að losa sig við kanínuna sína og sleppa henni lausri úti í skóginum, en áttaði sig ekki á því hversu grimmdarlegt það var gagnvart dýrinu. Þetta var nokkuð sjálfsævisöguleg saga því þótt ég ætti ekki kanínu í æsku var ég nokkuð sjálfselskur og tók ekki nægt tillit til annarra. Mig langaði til að skrifa sögu þar sem lesendur væru ekki sáttir við aðalpersónuna og segðu: Þetta máttu ekki gera, þú ert sjálfselskur. Mér finnst gaman að lesa bækur þar sem ég er ósáttur við ákvarðanir sögupersóna og vildi setja börn í þau spor.“

Hreinar tilfinningar

Spurður af hverju hann hafi ákveðið að teikna og skrifa fyrir börn segir hann: „Börn eru indælli manneskjur en fullorðna fólkið, það er ekki til illska í þeim, hún kemur seinna. Tilfinningar þeirra eru mjög hreinar, hvort sem þau eru glöð, sorgmædd eða hrædd. Ég man hvernig tilfinningar mínar voru á barnsaldri og þær urðu aldrei aftur þær sömu. Þegar maður verður eldri blandast tilfinningar manns minningum og þekkingu á eðli þeirra. Þegar maður er dapur veit maður að sú tilfinning mun ekki endast, maður á eftir að verða hamingjusamur og þegar maður er hamingjusamur veit maður að maður á eftir að verða dapur.“

Myndir þínar eru fullar af alls konar smáatriðum, hefurðu aldrei áhyggjur af því að þær séu of flóknar fyrir sum börn?

„Nei, ég hef gaman af að ögra. Ég vil ekki gera einfaldar myndir fyrir börn. Þegar þau virða fyrir sér myndirnar þurfa þau að einbeita sér. Það er engin ástæða til að gera þeim of auðvelt fyrir.“

Það er húmor í sögum Chaud og sömuleiðis ólga myndir hans af húmor. „Það getur verið einmanalegt að vinna að bókum þannig að ég reyni að skemmta sjálfum mér. Ég hef gaman af að gera teikningar sem koma mér til að hlæja eða brosa við skrifborðið,“ segir hann og bætir við: „Börn heillast af því sem fær þau til að hlæja og leita í bækur sem skemmta þeim.“

Börn halda áfram að lesa

Hefurðu áhyggjur af því að börn lesi ekki eins mikið og áður?

„Það eru unglingar sem eru að hætta að lesa en börnin munu halda áfram að lesa og þar hjálpa myndirnar því börnin horfa á þær og lesa síðan textann.

Ég á tvö börn, átta og fimm ára, og legg mig fram við að láta þau ekki sjá mig of oft með snjallsímann. Á heimilinu er gríðarlega mikið af bókum og í hverri viku kem ég heim með bókastafla. Börnunum finnst alltaf gaman þegar ég les fyrir þau bækur.“

Hvað finnst þeim um þínar bækur?

„Ég les þær ekki fyrir þau, það væri eins og að vera í vinnunni. Þau biðja mig heldur ekki um að lesa bækur mínar fyrir sig, kannski vita þau að ég er ekki mjög spenntur fyrir því.“