Steinunn fór aðeins 18 ára gömul í Húsmæðraskólann í Reykjavík, sem í dag heitir Hússtjórnarskólinn. Hún er lærður einkaþjálfari frá IAK. Hún er Metabolic þjálfari, zumba kennari og fit pilates kennari. Einnig er Steinunn nýútskrifuð sem lífsráðgjafi og mentorinn hennar er Guðni Gunnarsson hjá Rope Yoga setrinu. Heilsa, næring og hreyfing er henni huglæg. „Lykilatriði til að ná árangri í þjálfun er hollt og gott mataræðið þó svo að maður þurfi alltaf aðeins að lifa, njóta og leyfa sér og það getur maður ef við erum að velja um 80% hollan mat,“ segir Steinunn og brosir.
Steinunn á veitingahúsið Narfeyrarstofu í Stykkishólmi ásamt eiginmanni sínum Sæþóri Heiðari Þorbergssyni matreiðslumeistara. Þau eru búin að standa vaktina hlið við hlið í rúmlega tuttugu ár þar sem matur og þjónusta er þeirra ástríða. Veitingahúsið Narfeyrarstofa er í gömlu og sögufrægu húsi í hjarta bæjarins. Narfeyrarstofa hefur notið mikilla vinsælda þar sem allur maturinn þar er gerður frá grunni og er rómuð fyrir fagþekkingu á fersku og góðu hráefni. Oft er talað um að þau hafi matarkistu Breiðafjarðar sér við hlið og hafa gestir hrósað starfsfólkinu á Narfeyrarstofu fyrir hlýja og notalega þjónustu.
Hjónin hafa virkileg gaman að því að matreiða saman og prófa nýja og frumlega rétti, sérstaklega þegar kemur að sjávarfanginu sem Breiðafjörðurinn býður upp á. Einnig er mikið um ljúfmeti í sveitunum sem þau njóta þess að bjóða upp á í heimahúsi. „Það er fátt skemmtilegra en að bjóða góðum vinum heim. Þá yfirleitt byrjum við snemma að undirbúa matinn og legg ég líka mikið upp úr því að hafa fallega skreytt borð,“ segir Steinunn sem er ávallt jafn spennt fyrir matargerðinni.
Hér býður hún okkur upp á vikumatseðilinn sem er líka smá áskorun fyrir lesendur að prófa sig í áfram í. Njótið vel.
Mánudagur – Fiskisúpa og krabbi
„Eftir mikið át um helgar finnst mér yndislegt að fá mér fiskisúpu og salat. Stundum kemur með krabba heim og þá höfum við hann með súpunni. Ljúft að smakka á nýjum ferskum krabba.“

Klassísk fiskisúpa blönduð af krabbadýrum og beinum af bolfiski
1 pakki krabbadýr
Bein af bolfiski
250 g bláskel
Lítil dós af tómatpúrru
Grænmeti af eigin vali
2-3 litlir hvítlaukar, smá saxaðir
2 rauðir ferskir chillipipar, smátt saxaður
2-3 gulrætur
Ólífuolía eftir smekk
Vatn eftir smekk
1 peli rjómi
Krabbadýrin eru brotin niður brúnuð í olíu og soðin með tómatpúrru og grænmeti, hvítlauk, chilli og gulrótum. Gott er að blanda í soðið á síðustu 10 mínútunum beinum af bolfiski.
Sigtið síðan soðið og bætið við rjóma og smakkað til og berið fram með bláskel sem er sett í síðustu 5 mínúturnar – þá er allt klárt.
Þriðjudagur – Pönnusteiktur þorskhnakki
„Besti fiskur sem hugsast getur pönnusteiktur þorskhnakki með hvítlauk og chilli á sellerírótarmauki með stöppuðum kartöflum sem við setjum smá af möndlum í.“

Pönnusteiktur þorskhnakki
500 g þorskahnakki
Smjör eftir smekk
Salt og pipar eftir smekk
Sellerírótamauk (sjá uppskrift fyrir neðan)
500 g soðnar og stappaðar kartöflur
Handfylli af möndlum
Salt og pipar eftir smekk
1 litli hvítlaukur smátt saxaður
Þorskhnakkinn er steiktur á sárinu heitri pönnu og smjör sett út á eftir fyrstu mínútuna. Hitinn lækkaður og fisknum snúið og látinn damla rólega þangað til hann brotnar undan putta þegar ýtt er rólega á hann. Salt, svartur pipar og hvítlaukur settur í smjörið í steikingu.
Sellerírótarmús sem enginn stenst
Miðvikudagur – Lambainnarlæri með chimichurri
„Þá er fullkomið að fá sér lambainnralæri með chimichurri, dásamlega gott með salti og kartöflum.“

Lambainnarlæri
Lambainnarlæri grillað medium kryddað með svörtum pipar og góðu sjávarsalti eftir smekk.
Chimichurri
Skafinn lime börkur
limesafi
hvítlaukur
ferskur chilli pipar
skarlot laukur
góð ólífu olía
fersk steinselja
ferskt kóríander
Allt saxað smátt og blandað saman eftir smekklegri og frjálsri aðferð.
Veljið síðan kartöflur eftir smekk til að hafa með.
Fimmtudagur – Lax með ramensoði og núðlum
„Ég er svo mikil fiskimanneskja og finnst upplagt að fá mér lax með ramensoði og núðlum.“

Lax með ramensoði og núðlum
700 g nýr villtur lax
250 ml fiskisoð
250 ml kjúklingasoð
1 p núðlur að eigin vali
Blandið saman fiski- og kjúklingasoði. Ramen soð er í raun blanda af fiskisoði og kjúklingasoði, má vera smá vera smá spark í soðinu. Laxinn er steiktur og núðlurnar settar í bleyti og kláraðar í soðinu. Borið fram í djúpri skál, þar sem núðlur og soð eru undir og laxinn ofan á.
Föstudagur – Bláskel úr Breiðafirðinum
„Bláskelin úr Breiðafirðinum klikkar aldrei þar sem ég setti tómata, hvítlauk, chilli og engifer út í og læt gufusjóða með hvítvíni.“

Bláskelsréttur úr Breiðafirði
500 g bláskel
2-3 litlir hvítlaukar, skornir gróft
2-3 ferskur chilli pipar, skorinn gróft
Engifer eftir smekk, skorið gróft
5 niðursoðnir tómatar
Smjör eftir smekk
Byrjið á því að skera hvítlauk, chilli og engifer gróft. Svitað í smjöri saman. Góðum niðursoðnum tómötum bætt við og allt soðið saman. Smakkið til með salti og svörtum pipar. Sjóðið vel niður. Skelinni er síðan bætt í og lok sett ofan á og potturinn er hristur öðru hverju og skelinni blandað í kryddið. Þegar skelin hefur opnast þá er rétturinn tilbúin, ekki borða skel sem ekki opnast. Hægt að bera fram með salat, frönskum kartöflum en fullkominn réttur einn og sér.
Laugardagur – Þriggja rétta sælkeraveisla
„Á laugardögum finnst einstaklega gaman að bjóða heim í matarboð. Í forrétt mæli ég með hráskinku með ostum frá Erpsstöðum, heitreyktum tómötum, smáum paprikum, grafinn lax í rauðbeðum, grafinn lax með reyktri söl og heitreyktri gæsabringu. Svo er gaman að setja grásleppuhrogn og söl í skeið og leyfa fólki að smakka. Við erum svo heppin að við erum svo oft að fá eitthvað sérstakt sem kemur úr Breiðafirðinum og stundum höfum við fengið ígulker sem gaman er að bjóða upp á. Í aðalrétt mæli ég með nautasteik og humri með brúnni sósu. Síðan toppum við matarveisluna með ávaxtaskál í eftirrétt með því ferskasta sem til er að hverju sinni.“

Forréttabakkinn gæti litið svona út:
1 pakki af hráskinku að eigin vali
Valdir ostar frá Erpsstöðum
1 krukka heitreyktir tómatar
1 krukka smáar paprikur
Grafinn lax á rauðbeðum
Grafinn lax með reyktri söl
1 stk. heitreykt gæsabringa

Grafinn lax á rauðbeðum
Laxinn er lagður í 40 / 60 salt og sykur (saltið er 40) í sólarhring, rauðbeður eru rifnar og lagðar yfir og látið standa í annan sólarhring.
Nautalundina grillið þið eða steikið eftir ykkar kúnstarinnar reglu og fullkomið er að grilla humarinn smurðan með hvítlauks- og steinseljusmjöri.

Ávaxaskál í eftirrétt

Hér er boðið upp á fersk jarðaber og bláber og lífrænt epli.
Sunnudagur – Sjávarrétta spaghetti
„Á sunnudagskvöldi mæli ég með sjávarréttaspaghettí með rjómasósu bláskel og hörpuskel, þar sem hvítlaukurinn og chilli eru í aðalhlutverki. Ég elska hvítlauk og chilli og auðvitað býð ég upp á hvítlauksbrauð með.“

Sjávarrétta spaghetti
1 pakki spaghetti
250 g bláskel
250 hörpuskel
3 skarlotulaukar
2-3 hvítlaukar
2-3 chillipipar
1 stk. grænmetiskraftur
Svartur pipar og salt eftir smekk
1 peli rjómi, má vera meira
Fersk steinselja eftir smekk
Parmesan ostur eftir smekk
Svitaður skarlotulaukur smátt skorinn og hvítlauksgeirar ásamt ferskum chilli.
Rjóma hellt yfir og soðið niður þangað til rjóminn fer að þykkna gott er að hafa til svartan pipar, gott salt og grænmetiskraft og smakka til. Þegar sósan er klár þá er bláskelin sett út í og lok á pönnuna. Þegar bláskelin hefur opnast þá er soðnu spaghettínu bætt við út í sósuna. Þegar suðan kemur aftur upp þá er réttinum hellt í fallega skál og ferskri steinselju og rifnum parmesan osti stráð yfir, ekki spara ostinn.