Fimm­tíu þúsund rít­vít svo­kölluð er allt sem þarf til að Will Ferrell fram­­leiði aðra Euro­vision-grín­­mynd, ef marka má að­gang undir hans nafni á Twitter. Að­gangurinn er þó lík­lega í eigu ein­hvers að­dá­enda hans og því má segja að eins konar undir­skrifta­söfnun sé komin af stað þar sem fram­halds Euro­vision-myndarinnar er krafist. Mynd Wills Ferrels Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga kom út á dögunum og vakti mis­­jöfn við­­brögð á­horf­enda en þar eru Ís­land og sér­­stak­­lega Húsa­­vík í brenni­­depli.

„50.000 deilingar (e. retweet) og ég mun gera aðra Euro­vision-mynd,“ segir aðdáandinn sem titlar sig sem Will Ferrell í færslu sem birtist á sam­fé­lags­miðlinum Twitter rétt eftir há­degi í dag. „LÁTIÐ ÞAÐ GERAST,“ segir hann svo. Að­eins hafa 289 deilt færslunni þegar þetta er skrifað en Helgi Hrafn Gunnars­son, þing­maður Pírata, virðist hafa fulla trú á að mark­miðið náist:

„Það ætti að vera auð­velt! Það eru til um sjö sinnum fleiri Ís­lendingar en það,“ skrifar þing­maðurinn í at­huga­semd við færslu leikarans.

Á­huginn virðist að minnsta kosti meiri á fram­haldi Euro­vision-myndarinnar en þriðju myndinni um frétta­þulinn fræga Ron Bur­gun­dy, sem Will Ferrell lék eftir­minni­lega í myndinni Anchorman.

Fyrir rúmri viku síðan birti aðgangurinn sam­bæri­legt tvít um Anchorman og boðaði þar þriðju myndina í seríunni ef fimm­tíu þúsund manns deildu færslu hans. Að­eins hafa 203 deilt þeirri færslu, sem hann birti fyrir átta dögum.

Vilji Ís­lendingar því fram­hald af ævin­týrum þeirra Sig­rit og Lars í Euro­vision fyrir hönd Ís­lendinga er fátt annað í stöðunni en að leggjast á eitt og deila færslunni. Það vantar ekki nema 49.711 deilingar upp á.

Fréttin hefur verið uppfærð. Upprunalega stóð að aðgangurinn væri í eigu leikarans sem er líklega ekki rétt. Líklegra er að einhver aðdáandinn sjái um hana.