Bob Dylan hinn 78 ára gamli söngvari og lagahöfundur frá Bandaríkjunum hefur sent frá sér langþráð efni en hann gaf út sitt fyrsta lag í átta ár í nótt sem leið. Lagið ber nafnið Murder Most Foul. Síðasta efni sem kom frá Dylan var platan Tempest sem er frá árinu 2012.

Lagið Murder Most Foul er 17 ára endurminning á bandarísku samfélagi á sjöunda áratug síðustu aldar og morðinu á John F. Kennedy þáverandi forseta Bandaríkjanna árið 1963.

„Þeir skutu heilann í kónginum í tætlur og þúsundir fylgdust með," segir meðal annars í upphafi lagsins sem má sjá hér að neðan. Dylan segir að nokkuð sé um liðið síðan hann tók upp lagið.

Þá eru skírskotanir í bíómyndina Nightmare on Elm Street, leikritið Kaupmanninn í Feneyjum eftir William Shakespeare, lögin I Want To Hold Your Hand með Bítlunum og Only The Good Die Young sem Billy Joel söng.

Þá syngur Dylan um Stevie Nicks, Nat King Cole, The Eagles, Anything Goes með Cole Porter, Tunglskinssónötuna eftir Beethoven og djassspilarana Stan Getz og Charlie Parker.

Þetta ku vera lengsta lagið sem Dylan semur og syngur en það er 16 mínútur og 57 sekúndur en það er 26 sekúndum lengra en lagið Highlands sem hann gaf út árið 1997.

Dylan sendir þakkir í tilkynningu til aðdáenda sinna sem fylgir útgáfu lagsins og þakkar þeim þá þolinmæði sem þeir hafa sýnt á meðan ekkert hefur heyrst frá honum.