Eitt af því sem heillaði Bryndísi við húsið, sem er byggt 1953, var stór og veglegur garður. Þegar Bryndís tók saman við manninn sinn áttu þau hvort um sig þrjú börn úr fyrri samböndum. Yngstu eru orðin 16 ára og elsta barnið er 25 ára. Þá eiga þau tvo ketti og hunda. „Við erum því stór fjölskylda og þó svo það séu ekki allir búsettir á heimilinu á Selfossi þá kemur stór garður sér vel,“ segir Bryndís.

Þegar þau fluttu inn var garðurinn fullur af glerbrotum og allskyns drasli. „Fyrrum eigandi hafði leigt húsið út og var augljóst að leigjendur höfðu ekkert notað garðinn. Hann var allur í órækt og það var augljóst hvaða framkvæmdir hefðu verið á húsinu undanfarin ár, því þarna mátti finna glerbrot úr gömlum rúðum sem hafði verið skipt út, gamlan bakaraofn og fleira rusl sem hafði verið skilið eftir í garðinum. Það var þvílík vinna að fara með allt ruslið á kerru í Sorpu og við vorum að bókstaflega frá morgni til kvölds.“

Engar garðveislur enn

Bryndís og eiginmaður hennar, Geir, giftu sig í byrjun september 2019 og hafði hún séð fyrir sér stóra og veglega garðveislu í garðinum. „Það varð þó ljóst stuttu fyrir brúðkaupið að ég myndi aldrei ná að koma garðinum í stand fyrir veisluna. Veðurguðirnir bænheyrðu okkur og daginn sem veislan var dagsett þá var gul viðvörun. Því neyddumst við til þess að panta sal og halda veisluna þar,“ segir Bryndís og kímir.

Bryndísi og Geir tókst að koma garðinum í nokkuð gott stand í lok sumars 2019 og hlökkuðu eins og gengur til þess að geta haldið stórt garðpartý í tilefni brúðkaupsins. En svo kom gul viðvörun og partíið var haldið í sal.

Framkvæmdasumarið mikla

Sumarið 2020 fór að miklum hluta í framkvæmdir í kringum húsið. „Við máluðum húsið að utan, tókum þakið í gegn og hellulögðum. Þá setti ég handrið á tröppurnar úr girðingastaurum. Þetta átti að vera skammtímalausn svo heimilisfólk og gestir myndu nú ekki fljúga niður tröppurnar í vetur, en svo kom þetta svo vel út að ég hef ákveðið að halda þessu. Þetta var ódýr en flott lausn. Þá byggðum við garðskála, settum tjörn við hann og byggðum brú yfir. Einnig byggðum við pall, fengum okkur heitan rafmagnspott og svo settum við niður rósir og fullt af blómum. Rósirnar, sem voru af þremur tegundum, áttu ekki að blómstra fyrr en eftir þrjú ár að sögn sölumannsins, svo það kom mér mikið á óvart þegar þær blómstruðu hjá mér sama sumar. Það er greinilega góður jarðvegur þarna og þeim líður vel í garðinum hjá mér. Það var dásamlegt að sjá blómin og rósirnar blómstra í fyrra og garðurinn var æðislega fallegur.“

Alheimsöflin tóku aftur í taumana næst þegar Bryndís ætlaði að halda garðveislu. „Ég átti fertugsafmæli í fyrrasumar og ætlaði nú aldeilis að halda uppá það í garðinum. En þá kom kóvíd og skemmdi partýplönin. Kannski nær maður að gera eitthvað skemmtilegt í garðinum í sumar?“ segir Bryndís.

Garðurinn er orðinn að gríðarlega heillandi sumarparadís en þessi mynd er tekin í fyrra 2020.

Bryndís var að eiginsögn engn sérstök garðaáhugakona fyrr en hún flutti í húsið á Selfossi. „Ég hafði alltaf búið í Reykjavík með engan garð en núna stend ég mig að því að fara í göngutúra að skoða garðana í kring, tek myndir af fallegum jurtum og trjám og leita uppi hjá gróðurstöðum til að sjá hvort mig langi nú ekki í eins. Garðurinn er eilífðarverkefni, en þessar helstu og stærstu framkvæmdir eru loks búnar hjá okkur eins og er.“