María Krista Hreiðarsdóttir er grafískur hönnuður sem bæði hannar gjafavörur og skart og elskar að elda og baka. Hún heldur úti blogginu mariakrista.com þar sem hún birtir bæði uppskriftir og ýmis góð ráð.

María Krista segist sjálf vera Íslandsmeistari í megrun en hafa fundið sína hillu þegar hún kynntist ketó - og lágkolvetnamataræðinu. „Ég elska að elda og baka og fyrir mér er það áskorun að útbúa ljúffengan mat og kökur án glúteins, sykurs og gers. Það er ekkert verra ef fólkinu mínu líkar við matseldina, því þá er sigrinum náð. Best er þegar enginn áttar sig á fjarveru sykurs og glúteins í matnum þeirra.“

María Krista birtir uppskriftir sem henta þeim sem eru á ketó mataræðinu á vefsíðu sinni mariakrista.com.

Blómkáls risotto

1 blómkálshaus

1/2 piparostur (hörðu ostarnir í hring)

1/2 villisveppaostur (hörðu ostarnir í hring)

200 ml vatn

1/2 dl hvítvínsedik, eða hvítvín, má sleppa en mjög gott

1 teningur kjúklinga- eða sveppakraftur

salt og pipar

Rétturinn er bæði einfaldur og fljótlegur.

Rífið blómkálið smátt og takið til hliðar.

Rífið niður ostana og setjið í pott með vatninu, edik/hvítvíni og tening.

Látið suðuna koma upp og bætið þá blómkálinu saman við.

Hrærið reglulega í pottinum á meðalhita svo brenni ekki við og þegar blómkálið er farið að mýkjast aðeins þá er rétturinn klár.

Saltið og piprið eftir smekk og berið fram.