Það er óhætt er að fullyrða að ekkert grænmeti hafi notið jafn mikilla vinsælda undanfarið og blómkálið sem notað er í stað kjúklings, hveitis og hrísgrjóna og svo framvegis. Þessi súpa er bæði mettandi og bragðgóð.

2-3 msk. ólífu-, lárperu- eða annars konar olía til að elda úr

1 stór gulur laukur, saxaður

3-4 hvítlauksgeirar, saxaðir

¼ bolli hveiti (ef vill, þarf þó ekki)

2 gulrætur, saxaðar

1 meðalstór spergilkálshaus, skorinn í bita

1 meðalstór blómkálshaus, skorinn í bita

1 stór kartafla (eða 3-4 litlar), afhýddar og skornar í litla bita

3 bollar grænmetissoð (vatn og grænmetiskraftur)

1-2 bollar hafra-, möndlu eða annars konar jurtarjómi

Laukduft, salt og pipar

Sítrónusafi

Gott er að strá lúku af rifnum veganosti eða öðrum osti yfir súpuna

Það er líka ljúffengt að taka til hliðar smá af spergilkálinu, baka það í ofninum við 180°C á meðan súpan mallar og strá yfir súpuna áður en hún er snædd.

Aðferð

Hitið olíu og léttsteikið laukinn í örfáar mínútur, bætið við hvítlauk og hitið í hálfa mínútu.

Bætið við kartöflum, gulrótum, spergilkáli og blómkáli og hitið við miðlungshita í örfáar mínútur.

Ef súpan á að vera enn þykkari er gott að strá smá hveiti yfir grænmetið á þessum tímapunkti.

Bætið við grænmetissoðinu og jurtarjómanum og náið upp suðu.

Lækkið hitann örlítið og leyfið súpunni að malla í 20-25 mínútur.

Notið töfrasprota eða matvinnsluvél til þess að mauka súpuna, annaðhvort alla eða hluta hennar, eftir því hversu bitastæð súpan á að vera og smakkið til með sítrónusafa, salti, pipar og laukdufti.

Hellið í skálar, stráið ofnbökuðu spergilkáli og/eða osti yfir súpuna og njótið.