Auður segir að það hafi verið öðruvísi að útskrifast frá Danmörku því þar séu blóm í öllum veislum og mikið lagt upp úr blómaskreytingum.

„Það var gaman að vera fagaðili í blómaskreytingum í Danmörku og úrvalið af blómum alveg stórkostlegt. Veislurnar verða svo hátíðlegar og eftirminnilegar. Hér á Íslandi finnst mér alltof lítið notast við fagfólk til að skapa stórkostlega stemningu sem fylgir því að hafa blóm við hátíðleg tækifæri. Fólk sem skreytir með blómum talar oft um hversu mikla gleði og birtu þau skapa í andrúmsloftið.“

Auður minnist á hversu margt hafi breyst frá því hún byrjaði.

„Þegar innflutningur á blómum var leyfður breyttist heilmikið. Úrvalið varð meira og fjölbreyttara og gaf blómaskreytum tækifæri til að skapa öðruvísi skreytingar, sem aftur glöddu viðskiptavinina,“ segir hún.

Auður rekur blómabúðina á Garðatorgi í Garðabæ sem nefnd er í höfuðið á henni.

„Áhugi minn á blómum byrjaði strax þegar ég var unglingur og það varð til þess að ég valdi þetta fag þegar ég bjó í Danmörku. Blóm í allri sinni dýrð eru orkugefandi, heilandi og færa manni ómælda gleði. Blómin eru því stórkostlegt áhugamál í leik og starfi,“ segir hún.

Auður segist finna mikið fyrir því hversu mörg brúðkaup verði í sumar og allt komið á fullt eftir Covid.

„Sumir hafa frestað brúðkaupum einu sinni eða jafnvel tvisvar. Það ríkir því mikil spenna og gleði fyrir stóra deginum. Það er mismunandi hversu mikið fólk leggur upp úr einum stærsta degi lífsins. Sumir vilja hafa stóra veislu með öllu tilheyrandi meðan aðrir hafa minni veislur með sínum nánustu. Mörg brúðhjón sem halda minni veislur hafa lagt mikið upp úr því að hafa fallega skreytt með blómum og finna gleðina sem blómin skapa. Oft er ákveðið þema með litum blómanna og borðin skreytt í stíl við þau til að ná fram heildarútliti. Sumir hafa ákveðnar skoðanir meðan aðrir hafa ekki fastmótaða skoðun og það er mjög gott að setjast niður og ræða óskir hjóna og gefa ráð,“ segir Auður, sem hafði nýlokið við skreytingar í tveimur brúðkaupum þegar við ræddum saman.

Oftast er ákveðið þema með litum blóma í brúðkaupum og borð skreytt í stíl við það til að ná fram heildarútliti.
Glæsilegar borðskreytingar sem setja hátíðlegan brag á veisluborðin.

Þegar hún er spurð hvaða blóm séu vinsælust í sumar, svarar hún:

„Bóndarósin, orkídeur og brúðarslör eru alltaf mjög vinsæl og síðan þau blóm sem tóna vel saman. Úrval hefur aukist mikið á blómum og því úr mörgu að velja. Hér á landi leggur fólk minni áherslu á að skreyta með blómum í kirkjunni, en það er vinsælt erlendis. Það er mjög fallegt að hafa blómaskreytingu á altarinu og svo er ekkert fallegra en lifandi blóm á borðum í brúðkaupsveislum. Blómin veita mikla gleði og hamingju. Þau gera brúðkaupið ógleymanlegt með allri sinni fegurð og gera lífið bjartara.“

Fallegt er að setja jurtir sem skraut í vínfötu.
Vinsælt er að blanda blómum saman við efnivið úr íslenskri náttúru.

Persónulegir brúðarvendir

Auður segir að brúðarvendirnir séu yfirleitt persónulegir og gerðir eftir óskum brúðarinnar.

,,Sumar eiga sér eitthvað uppáhaldsblóm, síðan ræður árstími hvaða blóm eru í boði. Þeir eru bæði hefðbundnir, rustic, stærri og frjálslegri en hér áður fyrr. Til dæmis velja náttúruunnendur og útivistarfólk blóm sem blönduð eru með einhverju fallegu úr íslenskri náttúru. Erlend pör sem gifta sig á Íslandi velja líka oft náttúruleg blóm.

Eru einhver blóm sem ber að varast, til dæmis þau sem gefa frá sér lit?

,,Það þarf að fara mjög varlega ef notast er við lituð blóm, þau geta auðveldlega litað og skemmt brúðarföt og annað. Það er hins vegar allt í lagi að setja blóm með smá angan í brúðarvöndinn. Forðast þarf að hafa blóm með mikilli angan í veislusölum þar sem matur er borinn fram.

Hvernig myndir þú segja að hið fullkomna skreytta veisluborð sé?

,,Fallega skreytt veisluborð með fallegum blómum, litum og borðbúnaði sem spilar vel saman gefur hátíðlegt yfirbragð, það er fagmannsins að töfra þetta fram,“ svarar Auður.

Hún segir að það sé liðin tíð að brúðir þurrki brúðarvöndinn. ,,Brúðir eiga yfirleitt sinn brúðarvönd en láta líka útbúa svokallaðan kastvönd.“