Get ekki teiknað bláklukku, er yfirskrift sýningar á verkum Jóhannesar Kjarvals sem nú stendur yfir á Kjarvalsstöðum. Sýningarstjóri er Eggert Pétursson.

Spurður um heiti sýningarinnar segir Eggert: „Orðin koma frá Kjarval sjálfum. Hann skrifaði þau á teikningu sem hann hafði gert af bláklukkum, en þar sést greinilega að hann gat vissulega teiknað þær.“

Sýningin á Kjarvalsstöðum fjallar um blómaþáttinn í verkum listamannsins. Auk málverka og teikninga eru þar sýningarkassar með alls kyns skissum og teikningum sem tengjast blómum.

Ástsæll þjóðarmálari

„Kjarval hafði yndi af blómum og byrjaði snemma að mála þau,“ segir Eggert. Á árunum 1920-1930 gerði hann mikið af því að mála bláberjalyng og bláber og hélt því áfram þótt myndefnið breyttist í meðförum hans. Þetta eru frekar natúralískar myndir og mér finnst skemmtilegt að þær minna nokkuð á mínar eigin. Hann datt líka oft ofan í blómaflúr þegar hann var að krota.

Enginn verður svikinn af því að skoða undurfallegar blómamyndir Kjarvals.

Árið 1935 varð Kjarval fimmtugur og þá var haldin stór sýning á verkum hans í Menntaskólanum í Reykjavík og hann varð um leið ástsæll þjóðarmálari. Af þessu tilefni fékk hann mikið af blómum og í kjölfarið fór hann að mála blómvendi og skrautblóm og einnig þurrkuð blóm. Sömuleiðis er mikið til af blekteikningum af blómum í vasa og skrautblómum.“

Eins konar draumalandslag

Eggert flokkar verkin eftir þremur efnisþáttum sem hver um sig fær sinn sal. „Þegar gengið er inn í salinn er komið inn í þann hluta sýningarinnar sem ég vil kalla blómalandslag. Þar eru elstu bláberjalyngsverkin og einnig síðustu verkin þar sem hann málaði eins konar draumalandslag. Þar er jörðin alskreytt blómum og er í draumkenndri þoku. Það er vetrardrungi yfir þessum myndum, þær eru dálítið gráleitar, en nöfnin á þeim vísa í vorið og komandi sumar. „Það er dálítið eins og Kjarval hafi verið að berjast við drungann í sjálfum sér þegar hann málaði þessar myndir sem eru ákaflega fallegar.

Í öðrum sal eru verk sem kalla mætti hátíðarblóm en þar er að finna myndir af skrautblómum, blómvöndum og blómakörfum. Í þriðja salnum eru verk sem eru blómafantasíur. Á seinni hluta ferilsins fór Kjarval að mála andlit, verur og landslag sem blandast saman á myndum. Þetta gerðist líka í skrautblómamyndunum, þar fóru að detta inn andlit og blóm voru sett í landslagið. Blómaandlit, verur og vangasvipir fléttast saman og verða eins og skraut.“

Verk úr einkasöfnum

Eggert segir að það hafi kostað heilmikla vinnu að velja myndir á sýninguna. „Ég fór í gegnum skráningu á verkum Kjarvals hjá listasafninu og merkti við allt það sem viðkemur blómum. Þannig kom ég auga á meginlínurnar í blómaverkum hans. Síðan var heilmikið verk að velja verkin og finna þau. Ég fékk hjálp við það en margar af þeim myndum sem eru á sýningunni koma úr einkasöfnum. Þetta eru myndir sem hafa ekki verið mikið sýndar eða jafnvel ekki verið sýndar.“