Listamaðurinn ­Viktor Weisshappel hefur nú opnað sýninguna Í blóma í Gallery Porti við Laugaveg. Viktor útskrifaðist út grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands árið 2015.

„Verkefni mín hafa náð til ýmissa sviða innan hönnunar og lista, frá prenti til málverka og frá grasrótar- til stærri skala hönnunarverkefna. Ég hef verið starfandi sem grafískur hönnuður frá útskrift og bæði unnið hér heima og í Stokkhólmi. Í dag rek ég hönnunarstofuna Ulysses með honum Alberti Muñoz þar sem við sjáum um að skapa ímynd og ásýnd fyrir fyrirtæki. Síðan held ég einnig úti prentsölusíðunni Postprent.‌is með honum Þórði Hans Baldurssyni, þar sem við seljum prent eftir íslenska hönnuði, ljósmyndara og myndlistarmenn,“ segir Viktor.

Óljós lína

Viktor segist hafa byrjað að teikna og mála ungur.

„Síðustu ár hef ég verið svolítið mitt á milli grafískrar hönnunar og lista. Ég reyni að nálgast grafíska hönnun á listrænan hátt og hef til dæmis unnið mikið fyrir listamenn við að búa til plötuumslög, plaköt, bækur og fleira. Línan á milli grafískrar hönnunar og myndlistar getur verið svolítið óljós.“

Hann segist vera sífellt opinn fyrir mögulegum innblæstri og að hann komi í raun út öllum áttum.

„Í dag er mjög auðvelt að verða fyrir áhrifum annarra því það er hægt að sækja innblástur svo auðveldlega, þú þarft ekki annað en að opna símann þinn og þú ert með allan heiminn fyrir framan þig. Það hjálpar manni vissulega að vera meðvitaður um hvað er að gerast í umheiminum en jafnframt verður maður að passa sig svolítið á því að verða ekki fyrir of miklum áhrifum annarra, reyna að fylgja eigin innsæi og finna hugmyndir sem eru sannar verkefninu hverju sinni.“

Tekur myndefnið úr samhengi

Hvernig kom hugmyndin að sýningunni Í blóma til þín?

„Upprunalega fann ég sterka löngun til að fara að mála aftur og finna frelsið við að gera eitthvað fyrir sjálfan mig. Ég vildi líka brjóta eigin vinnureglur og sleppa því að skissa áður en ég byrjaði að vinna. Í upphafi vissi ég ekkert hvað ég ætlaði að gera en svo smátt og smátt fór hugmyndin að myndast. Blóm og náttúra urðu í raun og veru óvart viðfangsefni verkanna,“ svarar Viktor.

Málverkin byggja á klippimynda­aðferð og eru unnin með olíu á striga.

„Fyrir mér er náttúran það fallegasta og jafnframt hlutlausasta sem til er og það er áhugavert að notast við hana sem brunn til að sækja liti og form. Ég vildi taka myndefnið úr samhengi og brjóta það upp til að mynda sterkt samspil lita og forma. Einnig fannst mér svolítil þörf á náttúru og sterkum litum á þessum skrítnu tímum.“

Byrjaði aftur að mála

Hvernig hefur heimsfaraldurinn haft áhrif á þína vinnu sem listamaður?

„Ég var fljótlega kominn í sóttkví eftir að faraldurinn skall á. Allt í einu vorum við öll saman í þessu ástandi að takast á við veiruna. Mig langaði um leið að skapa eitthvað í sambandi við þetta ástand og fljótlega kom sú hugmynd upp hjá okkur í Postprent að gefa út opið kall á Instagram-síðunni okkar þar sem við óskuðum eftir því að sjá hvers konar list yrði til á tímum sóttkvíar og samkomubanns.

Við fengum á annað hundrað innsendingar yfir tveggja mánaða tímabil og héldum svo sýningu undir nafninu Sóttqueen í Ásmundarsal,“ svarar Viktor og heldur svo áfram: „Ég get eiginlega ekki kvartað yfir COVID því mér hefur í raun og veru bara gefist tími til að geta hugsað betur um hvað ég vil gera og hvað skiptir máli. Ég ákvað til dæmis að fara að mála aftur sem hefur verið mjög gefandi.“

Sýningin Í blóma er líkt og áður kom fram í Gallery Porti, sem þeir Árni Már Einarsson og Skarphéðinn Bergþóruson reka. Þeir vinna nú að opnun prentverkstæðis á efri hæð vinnustofu sinnar. Af því tilefni ætla þeir að vera með lifandi prentverkstæði í samstarfi við Viktor næsta fimmtudag milli klukkan 18.00 og 21.00, þar sem þeir munu silkiþrykkja og selja prentverk. Sýningin Í blóma stendur út janúar.