Ný stikla úr Star Wars-sjónvarpsþáttunum Book of Boba Fett kom út fyrir tveimur dögum. Stjörnustríðsaðdáandinn Stefán Pettersson segist þó ekki vita hverju hann eigi von á en mannaveiðarinn Boba Fett hefur verið hátt skrifaður hjá mörgum aðdáendum gömlu myndanna í áratugi.

„Ég hef ekki hugmynd um hvert þeir ætla að fara með þessa þætti og hvort þetta verður eingöngu þáttur um Boba Fett sjálfan en það sem kom á óvart var kannski þessi undirheimastemning,“ segir Stefán um stikluna fyrir þættina sem eru sjálfstætt framhald Mandalorian- þáttanna vinsælu og gerast eftir atburði gömlu bíómyndanna.

„Og það hefur, ekki svo ég viti, verið lögð svona mikil áhersla á þetta í sjónvarpinu,“ segir Stefán en í stiklunni lítur út fyrir að Boba nái yfirráðum yfir plánetunni Tatoo­ine, heimtur úr helju eftir að hafa virst deyja í Return of the Jedi.

-

Stjörnustríðsaðdáandinn Stefán
Mynd/Aðsend

„Ég var ekki viss hver tilgangurinn var að fá Boba aftur fyrst, þetta virkaði smá eins og svona „fan-service“ þegar Boba birtist skyndilega í Mandalorian-þáttunum,“ viðurkennir Stefán. „En þeir eru að prófa eitthvað nýtt og vilja greinilega hafa Boba sem beitu í þessum nýju þáttum og vekja áhuga, sérstaklega hjá aðdáendum.“

Þá hefur Disney gefið út nýja Star Wars-þætti á borð við Bad Batch, sem er framhald af Clone Wars og Star Wars Visions.

„Ég horfði á Bad Batch-þættina en hef ekki klárað Visions enn þá. Ég hef horft á einhverja þætti af þeim en sumir gripu mig ekki svo ég hef ekki haft nennuna til að horfa á meira,“ segir Stefán.

Hann segist hafa fjarlægst Star Wars eftir níundu myndina. „En ég hef fylgst með þessu með öðru auganu. Varðandi Book of Boba Fett hef ég ekki fylgst með því hverjir eru að leikstýra þáttunum eða sjá um þá,“ viðurkennir Stefán léttur í bragði.